mið 20. maí 2020 08:03
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Morgunblaðið 
Félag Hólmars í ótrúlegri stöðu - Forsetinn flúði land
Hólmar Örn Eyjólfsson er 29 ára og hefur leikið fjórtán A-landsleiki fyrir Ísland.
Hólmar Örn Eyjólfsson er 29 ára og hefur leikið fjórtán A-landsleiki fyrir Ísland.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Búlgarska félagið Levski Sofia rambar á barmi gjaldþrots eftir að eigandi þess, Vasil Bojko, flúði til Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Bojko er talinn ríkasti maður Búlgaríu en hann hefur lengi verið orðaður við ólöglega undirheimastarfssemi.

Búlgarska ríkið höfðaði mál á hendur honum fyrir viðamikla glæpastarfsemi og vill fá hann framseldan til landsins svo réttarhöld geti farið fram.

Íslenski landsliðsvarnarmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson spilar með Levski Sofia, sem er vinsælasta félag landsins, og er Hólmar í mjög áhugaverðu viðtali um þetta mál við Víði Sigurðsson hjá Morgunblaðinu.

Stuðningsmenn bjarga félaginu
Þegar gjaldþrot blasir við ná stuðningsmenn liðsins að halda lífi í félaginu með því að safna peningum með ýmsum hætti. Frá 12. febrúar hafi þeir útvegað félaginu meira en eina milljón evra.

„Maður er búinn að heyra ítrekað á undanförnum mánuðum að í næstu viku verði félagið gjaldþrota. En stuðningsmennirnir ná alltaf að safna saman nægilega miklum peningum til að halda þessu gangandi, sem er hreint með ólíkindum," segir Hólmar sem er í Búlgaríu.

Áætlað er að búlgarska deildin fari aftur af stað þann 5. júní en keppni var frestað vegna kórónaveirufaraldursins. Levski Sofia er í öðru sæti, níu stigum frá toppnum, en Hólmar er að klára sitt þriðja tímabil hjá liðinu. Hann er samningsbundinn í eitt tímabil í viðbót en veit ekki hvað gerist.

„Það verður bara að koma í ljós þegar nýir eigendur taka við hvernig þeir vilja standa að framhaldinu hjá félaginu. Það gætu vel orðið miklar breytingar á rekstrinum þannig að óvissan er mikil sem stendur. En í félaginu er mikið af góðu fólki sem gerir allt til þess að Levski komi sem best út úr þessu," segir Hólmar en viðtalið í heild sinni er í Morgunblaði dagsins.
Athugasemdir
banner
banner