banner
   mið 20. júní 2018 09:02
Elvar Geir Magnússon
Gelendzhik
Leikurinn gegn Nígeríu er meiri óvissuferð
Icelandair
Helgi Kolviðsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Helgi Kolviðsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Kolviðsson, aðstoðarmaður Heimis Hallgrímssonar, segir mikilvægt að hafa fengið vináttulandsleikinn gegn Gana fyrir HM. Ísland mætir annarri Afríkuþjóð, Nígeríu, á föstudaginn.

„Þeir (Gana) voru gríðarlega sterkir einn á móti einum og margir hverjir mjög líkamlega sterkir. Nígería er með enn meiri meðalhæð. Þeir eru miklir íþróttamenn og leita mikið að einn á móti einum. Þeir spila öðruvísi en Argentína," segir Helgi.

„Nígeríumenn töpuðu fyrsta leiknum (gegn Króatíu) og eru með þýskan þjálfara. Þeir hafa verið að gera breytingar á leikkerfinu sínu. Þeir hafa spilað með fjögurra manna, þriggja og fimm manna varnarlínur. Það er óvissa hvað þetta varðar. Þetta er úrslitaleikur hjá þeim og þeir vita það vel."

Helgi segir að erfiðara sé að lesa í taktík Nígeríu fyrir leikinn en það var að búa sig undir leikkerfi Argentínu.

„Það er erfitt að segja nákvæmlega hvernig þeir koma í þennan leik. Við vissum hvernig Argentína kæmi og gátum búið okkur vel undir það. Það er meiri óvissuferð að fara í þennan Nígeríuleik og við verðum að vera tilbúnir á leikdegi að bregðast við öllu sem gerist þegar flautað er til leiks. Við vitum um þeirra hættur," segir Helgi.

„Leikurinn gegn Gana var frábær reynsla fyrir okkur og ég held að við höfum lært mikið af þeim leik."

Helgi sat fyrir svörum á fréttamannafundi við Svartahaf í dag en þar tjáði markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson sig einnig um nígeríska liðið:

„Þetta verður aðeins opnari leikur en gegn Argentínu. Við höfum horft á Nígeríu og þeir eru líkamlega sterkir og fljótir. Þeir eru beinskeyttari en Argentína. Þetta verður erfiður leikur á margan hátt en við erum vel undirbúnir," segir Hannes.

Íslenski hópurinn flýgur yfir til Volgograd í dag þar sem leikið verður gegn Nígeríu á föstudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner