Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 20. júní 2019 10:40
Fótbolti.net
„Óli Jó gerði Hannesi engan greiða með viðtalinu"
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes ásamt Óla Jó.
Hannes ásamt Óla Jó.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er viðtal ársins og það verður ekki toppað. Maður sá það á þessum litla „fjölmiðlafundi" að þetta snerti hann svo sannarlega. Ég held að enginn hafi gert sér í hugarlund hversu mikið hann tók þetta nærri sér," segir Tómas Þór Þórðarson í Innkastinu um magnþrungna viðtalið við Hannes Þór Halldórsson eftir leik í gær.

SMELLTU HÉR til að hlusta á Innkastið

„Hannes talar um að það sé verið að vega að æru hans sem íþróttamanni. Fyrir okkur sem fjölmiðlamenn er það skylda að fjalla um þessi mál og ræða þau. Þetta er það sem fólkið er að ræða úti í bæ. Mér fannst mér renna blóðið til skyldunnar að tjá mig um þetta. Ég reyndi að gera það eins varkárnislega og hægt var en ef það hefur ekki komið þannig út og snert Hannes persónulega þá biðst ég afsökunar á því. En það breytir því ekki að mér finnst þetta einkennilegt mál frá A til Ö," segir Gunnar Birgisson.

Eins og flestir vita þá lék Hannes ekki gegn ÍBV um síðustu helgi vegna meiðsla en hann fékk leyfi til að fara í brúðkaup Gylfa Þórs Sigurðssonar fyrst hann væri meiddur. Ýmsar sögusagnir og kjaftasögur fóru í gang um að Hannes væri í raun leikfær og því jafnvel haldið fram að hann hefði haft klásúlu í samningi sínum um að fá að fara í brúðkaupsveisluna.

Óli Jó hefði getað hægt á snjóboltanum
Tómas Þór segir að Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, hafi vakið upp enn meiri grunsemdir með furðulegu viðtali sem hann fór í eftir leikinn við ÍBV.

„Óli Jó gerði Hannesi engan greiða í þessu viðtali sem var í Pepsi Max-mörkunum. Þá vöknuðu miklu meiri grunsemdir hjá fólki og það kveikti í umræðum í hinum ýmsu spjall-grúppum. Þá var fólk byrjað að búa það til að Óli Jó væri ósáttur við að 'þetta væri í samningnum hans'. Hann endurtók í þessu viðtali 'Ég veit ekki hvernig þetta virkar' margsinnis. Þarna hefði Óli Jó að einhverju leyti getað stoppað þetta en hann vakti upp miklu fleiri spurningar," segir Tómas.

„Þetta varð snjóbolti sem rúllaði hratt. Án þess að henda Óla Jó undir rútuna þá hefði hann getað hægt á þessum snjóbolta með skýrari svörum."

Gunnar Birgisson bætir þá við:

„Ég vona að þessu máli sé samt lokið núna. Ég held að svo sé þó ekki. Það hefði verið auðveldara að grafa þetta ef Valur hefði unnið," segir Gunnar.

„Eins og staðan er núna þá er þetta einn kafli í katastrófu-tímabili Vals. Allt fíaskóið sem er í kringum þetta," segir Elvar Geir Magnússon í Innkastinu en Valsmenn eru aðeins með sjö stig í Pepsi Max-deildinni.


Athugasemdir
banner
banner