mán 20. júlí 2020 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Fáránlegt að Lúlli fái ekki að þjálfa Kára"
Lúðvík Gunnarsson.
Lúðvík Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Smári Guðjohnsen fær að halda starfi sínu sem aðstoðarþjálfari U21 landsliðsins samhliða því að þjálfa FH. Hann er annar aðalþjálfara FH með Loga Ólafssyni.

„Ef menn vilja búa til hagsmunaárekstra þá er örugglega hægt að gera það. En þeir sem vinna faglegt starf munu aldrei láta eitthvað svona koma í veg fyrir að vinna gott starf. Það er ljóst að U21-liðið verður valið eftir því hvaða leikmenn ég tel að séu bestu leikmennirnir fyrir það lið, og enginn annar, sama í hvaða liði þeir eru," sagði Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ og aðalþjálfari U21 landsliðsins, í samtali við Vísi.

Rætt var um málið í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu 977 á laugardag.

„Það eru einhverjir að pirra sig á því að KSÍ sé búið að banna fólki innanhúss að fara í einhver þjálfarastörf áður hjá félagsliðum. Það er búið að senda mér einhverjar reglugerðir," sagði Elvar Geir Magnússon.

Lúðvík Gunnarsson hætti sem þjálfari Kára í fyrra eftir að hann var ráðinn sem nýr yfirmaður Hæfileikamótunar N1 og KSÍ. Baldvin Már Borgarsson, fréttaritari og aðstoðarþjálfari Ægis, segir það fáránlegt að Lúðvík fái ekki að þjálfa Kára.

„Mér finnst það fáránlegt að Lúðvík Gunnarsson fái ekki að þjálfa Kára þegar hann er með einhverja hæfileikamótun; hann er að fylgjast með einhverjum 13-14 ára krökkum um allt land. Það er enginn hagsmunarárekstur að þjálfa Kára upp á móti því. Kári er ekki með neina yngri flokka."

„Þú virðist mega vera aðstoðarþjálfari en ekki aðalþjálfari. Hefði það verið lausn fyrir Kára að skrifa Lúlla sem aðstoðarþjálfara á skýrslu og láta hann halda áfram?"

Það er spurning hvort Eiður Smári þurfi að hætta hjá KSÍ ef hann myndi taka einn við þjálfun FH. Það er samt athyglisvert að hann og Logi eru báðir titlaðir sem aðalþjálfarar Fimleikafélagsins.

Hlusta má á umræðuna í spilaranum hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Þjálfarahræringar og Guðlaugur Victor
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner