banner
   mán 20. júlí 2020 20:25
Brynjar Ingi Erluson
„Leikmenn mættu taka Xhaka sér til fyrirmyndar"
Granit Xhaka kom tvíefldur til baka eftir mikla gagnrýni
Granit Xhaka kom tvíefldur til baka eftir mikla gagnrýni
Mynd: Getty Images
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að leikmenn liðsins megi taka Granit Xhaka sér til fyrirmyndar en honum hefur tekist að snúa við blaðinu hjá félaginu.

Xhaka hefur spilað mikilvæga rullu í uppgangi Arsenal undanfarið en ekki er langt síðan að stuðningsmenn félagsins vildu fá hann burt. Fyrirliðabandið var tekið af honum og útlit fyrir að hann væri á leið frá félaginu.

Frá því Arteta tók við keflinu hefur Xhaka verið annar leikmaður og hefur hann sýnt vilja í að gefa allt sitt í verkefnið.

„Það var áskorun að sannfæra Granit um að það væri pláss fyrir hann í liðinu. Ég þurfti að sannfæra hann um að ég hefði mikla trúa á honum og að hlutirnir geta breyst hratt í þessum bransa," sagði Arteta á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Aston Villa.

„Hann þurfti að senda rétt skilaboð. Fyrst og fremst þurfti hann að hafa trú á því að hann gæti þetta og ef það var málið þá myndum við allir styðja hann í gegnum þetta."

„Ég er mjög ánægður að heyra viðbrögðin frá stuðningsmönnum gagnvart honum. Þeir kunna að meta það sem hann hefur gert og allt hitt tilheyrir fortíðinni. Það er hægt að taka margt jákvætt úr erfiðum aðstæðum og við lærum af því."

„Leikmenn ættu að taka hann til fyrirmyndar að þó að hlutirnir séu erfiðir að þá ertu samt ákveðinn í að vilja breyta hlutunum. Það er alltaf leið til baka."


Xhaka mátti þola mikla gagnrýni á síðasta ári og vildu margir stuðningsmenn Arsenal ekki sjá hann eftir að hann reifst við þá er honum var skipt af velli gegn Crystal Palace. Hann var þó staðráðinn í að gera betur, sem hann gerði, en geta leikmenn á borð við Matteo Guendouzi og Mesut Özil tekið hann sér til fyrirmyndar?

„Þetta á við um alla leikmenn og meðlimi þjálfaraliðsins. Ef þú vilt sýna að þú ætlir að gera þitt besta og ekki bara fyrir þig sjálfan heldur fyrir liðið og félagið þá munu allir taka þér opnum örmum."

„Það er ekki bara ég sem þarf að gefa græna ljósið heldur þurfa allir að sýna stuðning og þú þarft að finna stuðning frá öllum annars er staðan mjög óþægileg,"
sagði hann ennfremur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner