Leeds United nýliðar í ensku úrvalsdeildinni virðast vera búnir að tapa kappinu um Igor Paixao, 25 ára kantmann Feyenoord.
Leeds var í viðræðum við Feyenoord í sumar en tókst ekki að semja við félagið um kaupverð. Marseille er hins vegar við það að ná samkomulagi við hollenska félagið.
Marseille mun borga rétt rúmar 30 milljónir evra til að kaupa Paixao.
Paixao er afar smávaxinn kantmaður frá Brasilíu sem stóð sig frábærlega með Feyenoord á síðustu leiktíð, þar sem hann kom að 37 mörkum í 47 leikjum í öllum keppnum.
Hann átti til að mynda tvær stoðsendingar í sigri gegn Benfica og tvær í sigri gegn Girona í deildarkeppni Meistaradeildarinnar. Hann lagði einnig upp í fjörugu jafntefli gegn Manchester City og skoraði svo það sem reyndist sigurmarkið til að slá AC Milan úr leik í útsláttarkeppninni.
Paixao er aðeins 168cm á hæð, eða um tveimur sentimetrum lágvaxnari heldur en Lionel nokkur Messi.
Hann leikur sem vinstri kantmaður að upplagi en getur einnig spilað hægra megin eða í holunni fyrir aftan fremsta sóknarmann.
Hjá Marseille mun hann ganga til liðs við leikmenn á borð við Mason Greenwood, Amine Gouiri og Adrien Rabiot. Þeir spila undir stjórn Ítalans mikilsvirta Roberto De Zerbi.
Athugasemdir