Kólumbíski miðjumaðurinn Richard Rios er óvænt á leið til portúgalska félagsins Benfica fyrir 28 milljónir evra en þetta kemur fram í Record.
Benfica hefur náð endanlegu samkomulagi við Palmeiras um kaup á Rios og hefur leikmaðurinn sömuleiðis samþykkt að ganga í raðir portúgalska félagsins.
Rios er 25 ára gamall og var ein af stjörnum HM félagsliða í sumar og með kólumbíska landsliðinu á Copa America á síðasta ári.
Ítalska félagið Roma var lengi vel í viðræðum við Palmeiras um Rios, en aðilunum kom ekki saman um kaupverð og náði Benfica að stökkva inn í og 'stela' honum af Rómverjum.
Hann kveður Palmeiras í dag eða á morgun og mun síðan halda til Portúgal og skrifa undir fimm ára samning.
Manchester United og rússneska félagið Zenit höfðu einnig áhuga á að landa Rios. Miðjumaðurinn hafnaði Zenit en United lagði ekki fram formlegt tilboð í kappann.
Athugasemdir