Juventus að landa Sancho - Barcelona greiðir laun Rashford - Wharton til Liverpool?
   sun 20. júlí 2025 11:14
Brynjar Ingi Erluson
Sporting ekkert heyrt í Arsenal í sex daga - Man Utd komið aftur í baráttuna
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Líkurnar á að sænski framherjinn Viktor Gyökeres fari til Arsenal í sumar fara minnkandi en samkvæmt A Bola hefur enska félagið ekki verið í sambandi við Sporting í sex daga. Manchester United hefur fylgst með stöðunni og nú skráð sig aftur í baráttuna.

Arsenal og Sporting hafa verið í viðræðum um Gyökeres síðustu vikur en aðilarnir hafa ekki enn náð saman og virðist Arsenal vera að gefast upp.

Enska félagið lagði á dögunum fram tilboð upp á 73,5 milljónir evra, þar af 10 milljónir evra í árangurstengdar greiðslur, en því tilboði var hafnað af Sporting sem vill hafa skilyrði sem auðvelt er að uppfylla.

A Bola segir að Sporting hafi ekkert heyrt í Arsenal í sex daga eða síðan það tilboð var lagt fram og óttast fjölskylda leikmannsins að félagaskiptin verði ekki að veruleika.

Samkvæmt miðlinum brast faðir Gyökeres í grát og viðræðurnar greinilega tekið á hann og fjölskylduna.

Gyökeres hefur ekki enn látið sjá sig á æfingasvæðinu og var ekki með liðinu í fyrsta leik undirbúningstímabilsins vegna ósættis við Frederico Varandas, forseta félagsins, sem á að hafa brotið heiðursmannasamkomulag og hækkað verðmiðann á leikmanninum fyrir sumarið.

Fer hann til Man Utd?

Einnig kemur fram á A Bola að Man Utd sé aftur komið í baráttuna um Gyökeres og að félagið sé reiðubúið að 'stela' honum af Arsenal.

Miðillinn heldur því fram að Man Utd sé mjög nálægt samkomulagi við Sporting og að Ruben Amorim, stjóri United, hafi verið í sambandi við Gyökeres og náð að sannfæra hann um að koma til félagsins.

Heldur betur áhugaverðar vendingar í þessari endalausu sögu.

Gyökeres, sem er 27 ára gamall, hefur skorað 97 mörk í 102 leikjum með Sporting síðan hann kom frá Coventry fyrir tveimur árum.
Athugasemdir
banner