mán 20. ágúst 2018 15:15
Elvar Geir Magnússon
Heimir stefnir á tvennuna í Færeyjum - „Maður finnur fyrir ánægju fólks"
Heimir berst um að vinna tvöfalt í Færeyjum en á laugardaginn er bikarúrslitaleikur gegn B36.
Heimir berst um að vinna tvöfalt í Færeyjum en á laugardaginn er bikarúrslitaleikur gegn B36.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HB er með átta stiga forystu.
HB er með átta stiga forystu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir er ánægður með lífið í Þórshöfn.
Heimir er ánægður með lífið í Þórshöfn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Sólin skínur á Heimir og HB" segir fyrirsögn á færeyska vefmiðlunum in.fo. Fyrirsögn sem er svo sannarlega sönn því Heimir Guðjónsson og lærisveinar í HB í Þórshöfn eru með átta stiga forystu í Betri-deildinni, færeysku úrvalsdeildinni, og eru á leið í bikarúrslitaleik á laugardaginn.

Eftir að hafa endað í fimmta sæti í deildinni undanfarin ár má segja að Heimir hafi náð að „vekja risann" en HB er stærsta félag Færeyja.

Áskorunin að búa til sterka liðsheild
HB varð síðast Færeyjameistari fyrir fimm árum og síðast bikarmeistari fyrir fjórtán árum. Þó enn sé ekkert í húsi segir Heimir að hægt sé að tala um að árangurinn hingað til hafi verið framar vonum.

„Ég get alveg tekið undir það. Þetta er öðruvísi umhverfi en á Íslandi, undirbúningstímabilið er miklu styttra og það tók smá tíma að komast inn í þetta og kynnast þessu. Við byrjuðum mótið á 3-0 tapi fyrir KÍ í fyrsta leik en eftir ekkert sérstaka byrjun hefur gengið mjög vel. Nú er bara að halda áfram að æfa vel og vinna fótboltaleiki," segir Heimir við Fótbolta.net.

Hver var lykillinn að því að ná liðinu upp á toppinn aftur eftir lægðina tímabilin á undan?

„Aðal vandamálið var að það var ekki nægilega mikil liðsheild á bak við það sem menn voru að gera. Fyrir mér var stærsta áskorunin að búa til öfluga og sterka liðsheild úr leikmönnunum. Leikmenn tóku vel í það sem búið er verið að gera. Það hefur verið æft mjög vel og menn voru opnir fyrir því að leggja meira á sig en gert hefur verið. Þetta segi ég án þess að hafa farið í neinar rannsóknir á því af hverju hlutirnir voru ekki að ganga árin á undan."

Uppselt á bikarúrslitaleikinn
Það er mikil stemning í kringum HB á þessu tímabili, mætingin á leiki liðsins er góð og Heimir finnur fyrir gleði í samfélaginu með hvernig tekist hefur til.

„Maður finnur það að fólk er ánægt með gengi liðsins. Á móti kemur að við höfum ekki unnið neitt. Það eru enn sjö umferðir eftir í deildinni og bikarúrslitaleikur. Menn þurfa að vera með báða fætur á jörðinni og halda áfram að æfa vel og gera liðið betra," segir Heimir.

Þegar er búið að selja alla 3.500 miðana í sæti á bikarúrslitaleik HB gegn B36 sem fram fer á þjóðarleikvangi Færeyja á laugardagskvöld. Ekki er hægt að finna meiri grannaslag en liðin tvö deila velli á Þórshöfn og völlurinn er við hlið þjóðarleikvangsins.

„Það er alltaf gaman að spila stóra leiki. Það er gaman fyrir alla sem standa að liðinu að taka þátt í svona leik. Það er uppselt á leikinn, nágrannaslagur af bestu gerð. B36 er með hörkugott lið. Það eru landsliðsmenn innanborðs. Ég á von á hörkuleik. Við höfum spilað við þá tvisvar, einu sinni jafntefli og einu sinni sigur. Báðir leikirnir voru þannig að þetta gat dottið hvoru megin sem var."

Brynjar og Grétar hafa styrkt HB
Tveir íslenskir leikmenn spila með HB. Brynjar Hlöðversson, fyrrum fyrirliði Leiknis í Breiðholti, kom fyrir tímabilið og hefur verið lykilmaður en Grétar Snær Gunnarsson kom svo á láni frá FH í sumarglugganum.

„Binni hefur verið frá byrjun og staðið sig vel. Hann er með marga góða kosti sem fótboltamaður. Hann er sérstaklega sterkur í að leiða lið inni á vellinum og hefur gert það mjög vel. Grétar hefur verið að komast betur og betur inn í liðið. Báðir eru góðir fótboltamenn og hafa styrkt þetta," segir Heimir.

Möguleiki á að framlengja í Færeyjum
En hvernig líkar honum sjálfur lífið í Færeyjum og að vera kominn í aðra menningu eftir öll árin hjá FH í Hafnarfirðinum?

„Það er mjög gaman. Það er alltaf gaman þegar það gengur vel. Ég vildi prófa eitthvað nýtt, fara í annað land og sjá hvort hugmyndafræðin sem maður er með varðandi fótbolta gæti virkað annars staðar en á Íslandi. Þetta hefur verið mjög góð og skemmtileg reynsla. Það er mjög fínt að búa í Þórshöfn og Færeyingurinn er lífsglaður og skemmtilegur. Maður hefur ekki yfir neinu að kvarta."

Það leynir sér ekki að Heimi líður vel í Færeyjum. Er möguleiki á því að hann verði lengur hjá HB en þetta eina tímabil?

„Það er alveg möguleiki á því. Það er bikarúrslitaleikur framundan og svo deildarleikur 1. september. Eftir það kemur landsleikjahlé. Ég og þeir sem stjórna hérna vorum sammála um það að setjast niður eftir mánaðamótin og sjá hvort það sé ekki möguleiki hjá báðum aðilum að halda samstarfinu áfram," segir Heimir Guðjónsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner