Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 20. ágúst 2018 13:33
Magnús Már Einarsson
Landsliðshópurinn: Tveir nýliðar - Sara Björk í hópnum
Dagný og Harpa ekki með
Alexandra Jóhannsdóttir er nýliði í hópnum.
Alexandra Jóhannsdóttir er nýliði í hópnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Telma Hjaltalín Þrastardóttir er í hópnum.
Telma Hjaltalín Þrastardóttir er í hópnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara Björk Gunnarsdóttir er klár í slaginn.
Sara Björk Gunnarsdóttir er klár í slaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna, tilkynnti í dag hópinn sem mætir Þýskalandi og Tékklandi í lokaleikjunum í undankeppni HM í byrjun september.

Ísland er á toppi riðilsins fyrir komandi leiki og getur tryggt sér beint sæti á HM með sigri á Þjóðverjum. Efsta sætið í riðlinum gefur beint sæti á HM en 2. sætið gefur möguleika á sæti í umspili.

Staðan fyrir leikinn við Þjóðverja
Sigur á Þýskalandi = Ísland beint á HM
Jafntefli gegn Þýskalandi = Ísland þarf sigur á Tékkum til að fara á HM
Tap gegn Þjóðverjum = Ísland þarf sigur á Tékkum til að fara í umspil

„Það er gríðarleg pressa á Þýskalandi. Það að vinna ekki Ísland 1. september yrði katastrófa fyrir þýska landsliðið. Þær eru hræddar og mega vera það, því við munum gera allt sem við getum til að sigra þær. Það verður þrautinni þyngri," sagði Freyr á fréttamannafundi í dag.

„Ég biðla til allra sem hafa minnstan áhuga á knattspyrnu að koma og styðja við bakið á okkur. Vonandi verður hægt að upplifa magnaða stund í lok leiks 1. september. Það er draumurinn."

23 leikmenn eru í hópnum vegna mikilvægis leikjanna í stað 20 eins og oftast. Sara Björk Gunnarsdóttir er í hópnum og klár í slaginn. Sara meiddist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor en hefur hafið æfingar á nýjan leik.

„Hún er einkennalaus en hún hefur ekki spilað marga leiki líkt og aðrar í þýsku deildinni þar sem Bundesligan hefst ekki fyrr en eftir landsleikina. Ef það er eitthvað sem ég hef ekki af þá er það standið á Söru Björk," sagði Freyr.

Alexandra Jóhannsdóttir, 18 ára miðjumaður úr Breiðabliki, er nýliði í hópnum sem og Telma Hjaltalín Þrastardóttir framherji Stjörnunnar. Guðrún Arnardóttir, varnarmaður úr Breiðabliki, kemur einnig inn í hópinn.

Harpa Þorsteinsdóttir er fjarri góðu gamni en hún meiddist á hné í bikarúrslitaleik Stjörnunnar og Breiðabliks á föstudaginn. Arna Sif Ásgrímsdóttir, varnarmaður Þórs/KA meiddist einnig í leik á dögunum og er því fjarri góðu gamni.

Dagný Brynjarsdóttir gekk til liðs við Selfoss á dögunum eftir að hafa eignast barn fyrr í sumar. Hún er ekki klár í slaginn.

„Hún fann fyrir kvillum í baki fljótlega eftir að hún byrjaði að æfa aftur og nær ekki þessum leikjum," sagði Freyr.

Leikurinn gegn Þýskalandi fer fram laugardaginn 1. september klukkan 14:55 en leikurinn gegn Tékkum fer fram þriðjudaginn 4. september klukkan 15:00. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

Markverðir
Guðbjörg Gunnarsdóttir Djurgarden
Sandra Sigurðardóttir, Valur
Sonný Lára Þráinsdóttir, Breiðablik

Varnarmenn
Anna Björk Kristjánsdóttir, LB07
Sif Atladóttir, Kristianstad
Glódís Perla Viggósdóttir, FC Rosengard
Ingibjörg Sigurðardóttir, Djurgarden
Hallbera Guðný Gísladóttir, Valur
Anna Rakel Pétursdóttir, Þór/KA
Guðrún Arnardóttir, Breiðablik

Miðjumenn
Sara Björk Gunnarsdóttir, Wolfsburg
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Utah Royals
Sandra María Jessen, Þór/KA
Sigríður Lára Garðarsdóttir, Lilleström
Rakel Hönnudóttir, LB07
Selma Sól Magnúsdóttir, Breiðablik
Svava Rós Guðmundsdóttir, Roa
Alexandra Jóhannsdóttir, Breiðablik

Sóknarmenn
Fanndís Friðriksdóttir, Valur
Agla María Albertsdóttir, Breiðablik
Elín Metta Jensen Valur
Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Breiðablik
Telma Hjaltalín Þrastardóttir, Stjarnan
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner