mán 20. ágúst 2018 16:03
Elvar Geir Magnússon
Svona var síðasta byrjunarlið Liverpool undir stjórn Hodgson
Roy Hodgson tekur á móti Liverpool í kvöld.
Roy Hodgson tekur á móti Liverpool í kvöld.
Mynd: Getty Images
Maxi Rodriguez.
Maxi Rodriguez.
Mynd: Getty Images
Roy Hodgson, fyrrum stjóri Liverpool, tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Hodgson stýrir nú Crystal Palace en hann var ekki mjög vinsæll sem stjóri Rauða hersins.

Hans síðasti leikur sem stjóri Liverpool kom þriðjudaginn 5. janúar 2011. Liðið tapaði 3-1 fyrir Blackburn í leik þar sem Steven Gerrard klúðraði víti.

Það hefur margt breyst síðan þessi leikur fór fram og lið Liverpool verið styrkt verulega fyrir háar fjárhæðir. Í tilefni leiksins þá rifjaði Mirror upp síðasta byrjunarlið Hodgson sem stjóri Liverpool.

David N'Gog og Sotirios Kyrgiakos voru þá í liðinu en það eru breyttir tímar með leikmenn eins og Mo Salah og Virgil Van Dijk í dag.

Markvörður - Pepe Reina
Traustur og tryggur markvörður sem var vinsæll meðal stuðningsmanna. Var átta ár á Anfield og var lykilmaður þegar Liverpool komst í úrslit Meistaradeildarinnar 2007. Er nú varamarkvörður AC Milan.

Hægri bakvörður - Glen Johnson
Var óstöðugur hjá Liverpool. Var í sumar leystur undan samningi við Stoke eftir fall úr úrvalsdeildinni.

Vinstri bakvörður - Paul Konchesky
Oft gerður að blóraböggli hjá Liverpool. Lék í utandeildinni í fyrra.

Miðvörður - Sotirios Kyrgiakos
Spilaði meðal annars í Skotlandi, Grikklandi og Ástralíu en hefur lagt skóna á hilluna. Eignaðist aðdáendur hjá Liverpool fyrir að vera harður í horn að taka en mistökin sem hann gerði voru of mörg.

Miðvörður - Martin Skrtel
Spilaði 242 leiki fyrir Liverpool en stuðningsmenn óttuðust alltaf að hann myndi gera stór mistök. Var ekki í myndinni hjá Jurgen Klopp og fór til Fenerbahce.

Miðjumaður - Steven Gerrard
Eini leikmaðurinn undir stjórn Hodgson sem kemst í úrvalslið allra tíma hjá félaginu.

Miðjumaður - Lucas Leiva
Reyndist Liverpool oft vel vegna fjölhæfni sinnar og stöðugleika.

Sóknarmiðjumaður - Joe Cole
Fyrsti leikmaðurinn sem Hodgson keypti 2010 en sagði síðar frá því að hann hafi aldrei náð að tengjast stuðningsmönnum og það hafi verið mistök að fara til Liverpool.

Hægri vængur - David N’Gog
21 árs á þessum tíma og talinn framtíðarleikmaður. Það reyndist ekki rétt og hann er í dag að spila í Ungverjalandi.

Vinstri vængur - Maxi Rodriguez
Argentínumannsins er minnst á Anfield fyrir þrennur sínar gegn Fulham og Birmingham. Kom til Liverpool á frjálsri sölu og nýttist vel.

Sóknarmaðurinn - Fernando Torres
Skoraði grimmt fyrir Liverpool en fjögur erfið ár hjá Chelsea áttu svo eftir að setja skugga á það.
Athugasemdir
banner
banner
banner