Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 20. september 2018 12:21
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Arnór í Meistaradeildinni: Draumur síðan ég man eftir mér
Arnór í leik með U21 árs landsliði Íslands á dögunum.
Arnór í leik með U21 árs landsliði Íslands á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Maður er búinn að dreyma um að spila í Meistaradeildinni síðan maður man eftir sér. Þetta er geggjað og það er ekki verra að gera það svona ungur," sagði Arnór Sigurðsson, leikmaður CSKA Moskvu við Fótbolta.net í dag.

Hinn 19 ára gamli Arnór varð í gær yngsti Íslendingurinn til að spila í Meistaradeildinni en hann kom inn á sem varamaður í 2-2 jafntefli gegn Viktoria Plzen. Um var að ræða fyrsta leik Arnórs með CSKA en félagið keypti hann frá sænska félaginu Norrköping í lok ágúst.

„Þjálfarinn var búinn að tala við mig fyrir leik og segja mér að það væri líklegt að ég myndi koma inn á. Ég fékk tíma til að undirbúa mig og horfa á leikinn frá bekknum og stilla hausinn."

Pjakkur frá Íslandi sem vildi ekki kvarta yfir spjaldinu
Arnór kom inn á sem varamaður á 81. mínútu og einungis mínútu síðar fékk hann gula spjaldið. Dæmd var hendi á Arnór eftir baráttu hans við varnarmenn Plzen nánast á marklínu.

„Það var mjög illa að mér vegið. Þetta var klafs, boltinn fór upp í loft og hann hálfpartinn ýtir mér. Þetta var alveg óvart," sagði Arnór sem mótmælti dómnum þó ekki hjá franska dómaranum Benoit Bastien. „Ég nennti ekki að fara að kvarta, pjakkur frá Íslandi sem var nýkominn inn á," sagði Arnór léttur í bragði.

Mæta Real Madrid og Roma
Auk CSKA og Plzen eru Real Madrid og Roma í G-riðlinum í Meistaradeildinni. „Það eru spennandi leikir framundan. Við eigum grannaslag framundan á móti Spartak og svo Real Madrid," sagði Arnór en CSKA jafnaði á 95. mínútu í leiknum gegn Plzen í gær.

„Við byrjuðum á móti Plzen og ætluðum að ná í stig á móti þeim. Við náðum í sterkt stig úr því sem komið var eftir að hafa lent 2-0 undir. Það er ekki búist við þvi að við vinnum lið eins og Real Madrid en maður veit aldrei þessu. Við lítum á mestan séns gegn Plzen."

„Set mikla pressu á mig"
Arnór er spenntur fyrir nýju félagi í Moskvu en hann er að koma sér fyrir í Rússlandi eftir að hafa verið á Íslandi í verkefni með U21 árs landsliðinu.

„Þetta lítur allt mjög vel út. Þetta er rosalega professional og stór klúbbur. Ég er að komst betur og betur inn í allt. Ég er búinn að vera í rúmlega viku hérna og þetta er mjög spennandi," sagði Arnór sem ætlar sér stór markmið með liðinu.

„Ég er með stór markmið og set mikla pressu á mig. Fyrstu vikurnar ætla ég að koma mér inn í þetta. Það er gaman að koma inn á í Meistaradeildinni eftir einungis eina viku og það segir að þjálfarinn hefur bullandi trú á mér. Síðan er það undir mér komið að sýna mig og nýta mína séna."

Stefnan sett á landsliðið
Íslenski landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon er einnig á mála hjá CSKA en hann kom til félagsins frá Bristol City í sumar.

„Það hjálpar mjög mikið. Það er ekki töluð mikil enska hérna og það er hálf fyndið að reyna að tala við suma. Það er partur af þessu. Það er gott að hafa Hödda til að spjalla við og hann hefur hjálpað mér mikið."

Arnór spilaði sinn fyrsta mótsleik með U21 árs landsliðinu á dögunum en hann setur stefnuna á að komast í A-landsliðið í framtíðinni.

„Auðvitað er það markmiðið. Hvenær það kemur er ekki undir mér komið. Ég reyni bara að nýta sénsinn hérna og spila vel til að sýna mig fyrir þjálfurunum," sagði Arnór að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner