Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 20. september 2018 22:04
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: Mediaset Sport 
Gilardino leggur skóna á hilluna - Snýr sér að þjálfun
Mynd: Getty Images
Alberto Gilardino, 36, er búinn að leggja skóna á hilluna samkvæmt öllum helstu miðlum á Ítalíu.

Gilardino er einn af mestu markaskorurum allra tíma í ítalska boltanum með 188 mörk í Serie A. Hann er þar, ásamt Alessandro Del Piero og Giuseppe Signori, í 8-11. sæti.

Gilardino lék einnig mikilvægt hlutverk er Ítalía varð heimsmeistari 2006. Þar skoraði hann gegn Bandaríkjunum í riðlakeppninni og lagði upp mark Del Piero í undanúrslitaleiknum gegn Þjóðverjum. Þá vann hann Meistaradeildina með AC Milan 2007.

Gilardino var hjá Spezia í B-deildinni á síðasta tímabili og gerði 6 mörk í 16 deildarleikjum. Hann gerði garðinn frægan sem leikmaður Parma nokkrum árum eftir aldamót og vildi Roman Abramovich kaupa hann til Chelsea fyrir 35 milljónir punda árið 2005.

Sóknarmaðurinn segist hafa verið með nokkur samningstilboð en ekkert sem honum leist nógu vel á. Hann hafnaði þeim öllum og ætlar að snúa sér að þjálfun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner