Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 20. október 2021 18:43
Brynjar Ingi Erluson
Bann Davíðs Smára stytt um einn leik
Davíð Smári Lamude
Davíð Smári Lamude
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áfrýjunardómstóll KSÍ stytti í dag bann Davíðs Smára Lamude, þjálfara Kórdrengja, úr fimm leikjum og niður í fjóra.

Davíð Smári var dæmdur í fimm leikja bann eftir framkomu sína eftir2-2 jafnteflið gegn Fram í næst síðustu umferð Lengjudeildarinnar þann 11. september.

Kórdrengir leiddu leikinn gegn Fram 2 - 1 þegar komið var í uppbótartíma og eitthvað voru þeir ósáttir við hvað Egill Arnar Sigurþórsson dómari leiksins hafði mikinn uppbótartíma.

Egill gaf Davíð Smára rauða spjaldið og hálfri mínútu síðar skoruðu Framarar jöfnunarmark og fögnuðu mikið.

Davíð Smára var þá nóg boðið og rauk inn á völlinn, tugi metra til að eiga orðastað við Egil og alveg ljóst að það var ekki á góðu nótunum.

Egill dómari var ákveðinn og vísaði Davíð Smára í burtu en gekk hægt að koma honum af vellinum þar til Heiðar Helguson aðstoðarþjálfari kom á svæðið og tók hann af vellinum. Davíð reif svo spjöldin af dómaranum áður en hann skilaði þeim síðar.

Fyrir það fékk Davíð fimm leikja bann en hann áfrýjaði dómnum til áfrýjunardómstóls KSÍ. Málið var tekið fyrir í dag og var bannið stytt um einn leik eða niður í fjögurra leikja bann.

Hann er búinn að taka út einn leik og missir því af fyrstu þremur leikjum næsta tímabils.

Úrskurður Áfrýjunardómstólsins:

„Þó ljóst sé að áfrýjandi hafi ekki fylgt settum reglum og hagað sér á óíþróttamannslegan hátt og rifið spjöld úr hendi dómara að leik loknum verður ekki litið svo á að sannað sé að hann hafi sýnt af sér svo ofsalega framkomu að honum beri þyngri refsing en beitt hefur verið gagnvart leikmönnum á umliðnum árum fyrir sambærileg háttsemi.

Þykir því hæfilegt að banna áfrýjanda frá keppni á vegum KSÍ í samtals fjóra leiki. Bannið ber áfrýjanda að afplána í samræmi við grein 12.2. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál."

Athugasemdir
banner