mið 20. október 2021 22:29
Brynjar Ingi Erluson
Bayern setti nýtt met - Ekki tapað á útivelli í fjögur og hálft ár
Leroy Sane og Robert Lewandowski fagna aukaspyrnumarki þýska landsliðsmannsins
Leroy Sane og Robert Lewandowski fagna aukaspyrnumarki þýska landsliðsmannsins
Mynd: EPA
Þýska liðið Bayern München vann Benfica 4-0 í Portúgal í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld en öll fjögur mörkin komu á síðustu tuttugu mínútum leiksins.

VAR tók tvö mörk af þeim Robert Lewandowski og Thomas Müller sitt hvorum megin við hálfleikinn og var það ekki fyrr en á 70. mínútu sem Leroy Sane tók forystuna með mögnuðu aukaspyrnumarki.

Bayern bætti við þremur mörkum til viðbótar. Annað markið var sjálfsmark, svo gerði Lewandowski þriðja markið áður en Sane gulltryggði sigurinn með fjórða markinu.

Þetta var 20. leikur Bayern í röð án taps á útivelli í Meistaradeildinni en síðasta tap liðsins kom gegn Real Madrid í apríl árið 2017 í 8-liða úrslitum keppninnar.

Síðan þá hefur liðið unnið sextán leiki og gert fjögur jafntefli en ekkert lið í sögu Meistaradeildarinnar hefur náð þessu afreki. Bayern er í efsta sæti E-riðil með fullt hús stiga og er nokkuð örugglega á leið í 16-liða úrslit.
Athugasemdir
banner
banner