mið 20. október 2021 10:43
Elvar Geir Magnússon
Bruce íhugar að hætta í þjálfun - „Hefur verið erfitt fyrir fjölskyldu mína"
Steve Bruce, stjóri Newcastle.
Steve Bruce, stjóri Newcastle.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það hafði verið draumur hjá Steve Bruce að taka við Newcastle United en þegar sá draumur rættist gekk hann í gegnum mjög erfiða tíma. Hann var gríðarlega óvinsæll meðal stuðningsmanna og varð fyrir miklu áreiti.

Newcastle tilkynnti í morgun að Steve Bruce væri hættur sem stjóri félagsins. Í viðtali við Telegraph segir Bruce, sem er 60 ára, að þetta gæti hafa verið hans síðasta stjórastarf.

„Mögulega var þetta mitt síðasta starf. Þetta snýst ekki bara um mig, þetta hefur tekið toll af allri fjölskyldu minni því hún styður Newcastle. Þau hafa haft áhyggjur af mér, sérstaklega Jan eiginkona mín. Hún er ótrúleg kona, stórkostleg móðir og amma," segir Bruce.

„Hún glímdi við dauða foreldra minna á meðan hennar voru veikir. Svo var hún með áhyggjur af mér og það sem ég hef gengið í gegnum síðustu ár. Hún hefur stutt mig í gegnum lífið og ef ég myndi segja við hana á morgun: 'Ég hef fengið starfstilboð frá Kína' þá myndi hún segja: 'Steve er þetta rétt fyrir þig, vilt þú taka þetta?' og svo myndi hún styðja mig aftur."

„Ég er 60 ára gamall og veit ekki hvort ég sé tilbúinn að láta hana ganga í gegnum svona aftur. Þetta var líklega mitt síðasta starf, þar til einhver stjórnarformaður hringir og biður um hjálp! Aldrei að segja aldrei, ég hef lært það."

Ótrúlega erfiður tími
„Þegar ég tók við Newcastle hélt ég að ég gæti höndlað allt sem kæmi til mín en þetta hefur verið ótrúlega erfitt. Að finna það að fólk vilji ekki hafa mig, fólk væri að vonast eftir því að mér myndi ganga illa, lesa stöðugt um að mér myndi mistakast, að ég væri ónothæfur, heimskur og taktískt vanhæfur fáviti. Þetta var frá degi eitt," segir Bruce.

„Þegar við vorum að ná ágætis úrslitum var talað um að fótboltinn væri lélegur eða að ég væri bara heppinn. Þetta var fáránlegt og hélt áfram, sama þó úrslitin væru góð."

„Ég reyndi að njóta starfsins og gerði það. Ég hef alltaf notið þess að vera í baráttunni, þagga niður efasemdarraddir. En það er erfitt þegar þú finnur að þrátt fyrir að þú sért að vinna leiki sértu ekki að ná að vinna stuðningsmennina á þitt band."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner