mið 20. október 2021 12:00
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Sigurður á leið út á reynslu - „KR vill hjálpa mönnum að komast út"
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Steinke
Sigurður Bjartur Hallsson gekk til liðs við KR í gær en hann skrifar undir þriggja ára samning. Hann átti frábært tímabil með Grindavík í Lengjudeildinni og skoraði alls sautján mörk. Þessi 22 ára sóknarmaður hefur tekið miklum framförum.

Svo gæti farið að Sigurður muni ekki spila fyrir KR en Rúnar Kristinsson þjálfari KR staðfesti það í viðtali við Fótbolta.net að félagið hafi gefið honum leyfi að fara til Noregs á reynslu.

„Hann er með leyfi til að fara erlendis í prufu. Hann er væntanlega að fara til Noregs í lok október, við sömdum við hann þannig að hann hefur möguleika á því að fara út eitthvað fram í janúar. Við erum hæstánægðir ef hann kemst erlendis því við í KR viljum hjálpa mönnum að komast út."

Þrátt fyrir að Sigurður stoppi stutt hjá KR segist Rúnar vera ánægður með að hann fái tækifæri á að spreyta sig úti.

„Ísland er ekki stærsta og besta fótboltaþjóð í heimi. Við viljum að menn komist til útlanda í stærri deildir og verði betri fótboltamenn því það hjálpar íslenskum fótbolta í heild sinni. Við gleðjumst yfir því þó svo við værum til í að hafa hann aðeins lengur en bara nokkrar vikur þá er alltaf jákvætt þegar íslenskir leikmenn komast erlendis í góða klúbba."
Sigurður Bjartur: Fínt að fá þetta svigrúm frá KR
Rúnar Kristins: Kemur enginn í KR og á öruggt sæti
Athugasemdir
banner
banner