fim 21. febrúar 2019 20:44
Magnús Már Einarsson
Felipe Anderson átti ekki takkaskó og fékk ekki alltaf mat
Mynd: Getty Images
„Þetta var erfið æska en ánægjuleg," segir Felipe Anderson, miðjumaður West Ham, í viðtali við BBC í dag. Anderson er yngstur fimm systkyna sem ólust upp saman í Santa Maria í Brasilíu. Hann segist hafa upplifað fátækt í æsku.

„Það komu tímar þar sem við höfðum ekki nægilega mikið af mat á borðunum. Þegar kom að mánaðarmótum gat ég séð að foreldrar mínir voru leiðir því þeir gátu ekki gefið okkur það besta. Þeir skulduðu mikið og rifust stundum út af því," sagði Anderson.

Foreldrar Anderson gátu ekki keypt takkaskó fyrir hann en hann lét það ekki á sig fá.

„Það var ekki eitthvað sem ég leit á sem hindrun. Ef það varð til þess að ég þurfti að fá lánaða skó hjá vinum mínum þá var það bara þannig," sagði Anderson en hann hefur hjálpað stórfjölskyldu sinni í Brasilíu fjárhagslega eftir að hann sló í gegn í fótboltanum.

„Ég nýti þetta sem styrkleika núna. Þetta hefur hjálpað mér að halda báðum fótum á jörðinni og vera hógvær á sama tíma og ég hjálpa öðrum því ég veit að margir eru í erfiðri stöðu."
Athugasemdir
banner
banner
banner