fim 21. mars 2019 14:00
Arnar Daði Arnarsson
Bjarni um komu Lee Sharpe: Þetta var alveg magnað
Lee Sharpe í Grindavíkur-búningnum.
Lee Sharpe í Grindavíkur-búningnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Timarit.is
Lee Sharpe fyrrum leikmaður Manchester United, Leeds, Sampdoria, Bradford og Exeter gekk í raðir Grindavíkur sumarið 2003 en þá var Bjarni Jóhannsson þjálfari Grindavíkur.

Bjarni Jóhannsson er gestur hlaðvarpsþáttarins, Miðjunnar og ræðir í þættinum til að mynda komu Lee Sharpe til Grindavíkur.

„Þetta var alveg magnað. Dagbjartssynir og Dagbjartur sem var litríkur aðdáandi í Grindavík og frábær náungi voru miklu Untied aðdáendur. Ég man að þetta kom til tals því þeir feðgar voru miklir United menn og höfðu farið til Manchester. Þar hittu þeir Íslending sem hafði verið þar lengi, Friðrik Ragnarsson gamall fótboltamaður úr Grindavík. Feðgarnir hitta Friðrik í Manchester og hitta þeir Lee Sharpe, ef ég man þetta rétt á bar."

„Hann var auðvitað vel þekktur leikmaður hjá United það verður eiginlega að segjast eins og er. Það var svona George Best fílingur í honum. Hann var mikið í kvenfólki og víni. Þeir félagarnir vaða í þetta og spyrja hvort hann sé ekki hreinlega bara tilbúinn að koma til Íslands og spila á Íslandi. Þannig byrjar þetta eiginlega," sagði Bjarni þegar hann lýsir aðdraganda þess að Lee Sharpe kom til Grindavíkur og lék með liðinu, þó styttra en ætlast vera til.

„Það verður einhver umræða um þetta í Grindavík hvort við ættum að taka hann. Menn héldu að þetta væri tómvitleysa en síðan var ákveðið að vera ekkert að pæla í þessu. En til að gera langa sögu stutta þá koma þeir og spyrja: "Ef við fjármögnum kappann hvort við séum ekki tilbúnir að fá hann." Á þessum tíma ætlaði hann að fara snúa blaðinu við í lífi sínu, hætta að drekka og reyna eiga eftirminnileg ár í fótboltanum."

Bjarni lýsir því síðan þegar hann fór niður á bryggju og hitti þar Dagbjart sjálfan.

„Ég man alltaf eftir því að ég var sá maður sem var hvað skeptískastur á það að fá hann. Ég vildi ekkert vera fá hann þó hann væri frægur og allt þetta. Ég man að ég var að þvælast niður á höfn einn daginn þá kemur Dagbjartur til mín og segir við mig: "Eigum við ekki að taka hann, þetta verður svo gaman" og honum fannst þetta alveg magnað og segir svo í lokin: "Bjarni, við tökum hann og gerum mann úr honum aftur!" og Dagbjartur var svo sannfærandi og síðan næstu daga þróaðist þetta þannig að það voru menn sem vildu þetta, miklir United menn hvort sem þeir voru í Grindavík eða ekki og voru tilbúnir að fjármagna þetta. Á endanum tókum við hann og hann entist rétt framyfir sjómannadaginn þá var hann farinn. Þá datt hann aftur í það og fór."

Lee Sharpe lék því einungis fjóra leiki með liðinu þetta sumarið í eftu deild.

„Þetta var ljúfur drengur og ég hef allt gott um hann að segja. Hann var mjög góður í fótbolta og kom sér í ágætisform. Síðan meiddist hann og síðan gafst hann eiginlega bara upp og vildi fara aftur til Englands. Hann fór með okkur í æfingaferð til Spánar og sú æfingaferð var sögustund á kvöldin. Hann var að segja okkur sögur af æfingaferðum með Manchester United. Fyrir bæði hópinn og stemninguna þá var þetta frábært."

„Það var vesen í kringum hann, utan vallar. Hann spilaði með okkur alltof stutt og ég hefði gjarnan viljað hafa hann lengur. Þetta var mjög litríkt og skemmtilegt meðan á þessu stóð, ekki spurning. Þetta snerist allt um hann orðið og truflaði jafnvel örlítið hópinn. Þetta var orðið leiðinlegt til afspurnar þessar barferðir hans. Við getum orðað það þannig," sagði Bjarni Jó í Miðju vikunnar.

Hægt er að hlusta á Miðjuna með Bjarna Jó í heild sinni hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner