Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 21. apríl 2020 15:30
Magnús Már Einarsson
Tímavélin: Gleði FH-inga breyttist í sorg eftir sigurmark Víkings
Tímavél sem birtist upphaflega 2011
Grein úr Morgunblaðinu eftir lokaumferðina.  Smellið á myndina til að sjá hana stærri.
Grein úr Morgunblaðinu eftir lokaumferðina. Smellið á myndina til að sjá hana stærri.
Mynd: Timarit.is
Grein úr DV eftir lokaumferðina.
Grein úr DV eftir lokaumferðina.
Mynd: Timarit.is
Tómas Meyer og Sigurður Sighvatsson
Tómas Meyer og Sigurður Sighvatsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þá er komið að "Tímavélinni" en þar förum við aftur í tímann og skoðum gamla leiki og gömul atvik.

Í dag förum við aftur til ársins 1998 og skoðum lokaumferðina í fyrstu deild karla það árið.


Lokaumferðin í 1. deild karla árið 1998 er ein sú mest spennandi í deildarkeppni á Íslandi frá upphafi. Fyrir umferðina var ljóst að Breiðablik myndi fara upp í úrvalsdeildina en Víkingur R., FH og Fylkir áttu öll möguleika á að fara líka upp. FH var í öðru sætinu fyrir umferðina með 32 stig og Víkingur R. og Fylkir fylgdu þar á eftir með 31 stig.

FH og Fylkir áttust við í Hafnarfirði á sama tíma og Víkingur R. mætti Stjörnunni sem hafði að litlu að keppa. Í hinum þremur leikjunum í lokaumferðinni voru skoruð samanlagt 38 mörk eða tæp 13 mörk að meðaltali sem er líklega einsdæmi á Íslandi. Öllu rólegra var þó í toppbaráttunni þar sem staðan var 0-0 þegar flautað var til leiksloka í Hafnarfirði.

Þá voru nokkrar mínútur eftir af leik Víkings og Stjörnunnar og þrátt fyrir ágætis færi höfðu heimamenn ekki náð að skora þar og staðan var 0-0 þegar að flautað var til leiksloka í Kaplakrika. FH-ingar virtust því vera á leiðinni upp og þeir fögnuðu ógurlega enda fór sá misskilningur af stað að búið væri að flauta til leiksloka í Víkinni og að leikurinn þar hefði endað 0-0.

Þjálfari FH var tolleraður:
Pétur Ormslev, þjálfari FH, var tollerður af leikmönnum liðsins en þegar hann var í einni flugferðinni kom reiðarslagið fyrir Fimleikafélagið. Sigurður Sighvatsson, varnarmaður Víkings, hafði skorað sigurmarkið í Víkinni með þrumuskoti fyrir utan teig þegar að þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og fréttir af því bárust í Hafnarfjörð. FH-ingar trúðu varla því sínum eigin eyrum enda höfðu þeir fengið rangar fréttir um að leikurinn væri búinn í Víkinni.

„Það var útvarpsútsending í gangi frá báðum leikjunum. Við vissum að staðan var jöfn og það nægði okkur. Síðan datt útsendingin út og einhver sagði að leikurinn væri búinn og við værum komnir upp. Þá misstu menn sig í einhverri gleði áður en annað kom í ljós,” sagði Pétur þegar Fótbolti.net bað hann að rifja þetta upp.

„ Þetta var ekki langur tími sem við fögnuðum. Ég held að það hafi ekki náð mínútu áður en einhver náði að grípa inn í. Þetta var svolítið kjaftshögg. Við vorum í huganum komnir upp um deild og að vera dreginn svona niður aftur er undarlegt.”

Eins og að vinna HM:
Stemningin í Hafnarfirði var vægast sagt döpur eftir að fréttirnar bárust úr Víkinni en þar var sannkölluð hátíðarstemning eftir sigurmarkið hjá Sigurði sem spilaði sem hægri bakvörður í leiknum. Sigurður skoraði markið með viðstöðulausu þrumuskoti fyrir utan vítateig við gífurlegan fögnuð hjá Víkingum.

„Ég er ennþá starfandi hjá Víking og maður er varla þekktur fyrir annað en þetta eina skot,” sagði Sigurður þegar Fótbolti.net fékk hann til að rifja markið fræga upp.

„Það var margt búið að ganga á og við vorum búnir að eiga sláar og stangarskot. Það hafði oft gerst í leiknum að við áttum lélega sendingu inn í og þeir skölluðu út. Þegar ég sá í hvað stefndi ákvað ég á að byrja að stela metrunum og vona að boltinn kæmi. Hann datt síðan skemmtilega fyrir mig, endaði í andlitinu á einum og svo á góðum stað í markinu.”

„Maður hefur ekki upplifað neitt sætara í fótboltanum og væntanlega enginn af þeim sem spilaði þennan leik fyrir hönd Víkings. Þetta var eins og að vinna HM liggur við.”


Hér að neðan má sjá svipmyndir úr leik Víkings og Stjörnunnar og ógurlegan fögnuð eftir mark Sigurðar.





Ef lesendur hafa ábendingar um áhugavert efni í "Tímavélina" má senda tölvupóst á [email protected]

Sjá einnig:
Eldra efni í Tímavélinni
banner
banner
banner
banner
banner