fim 21. júní 2018 23:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Indriði Sig spilaði með Ighalo: Ósköp góður drengur
,,Maður hafði líka áhyggjur af Messi"
Icelandair
Odion Ighalo er framherji númer eitt hjá Nígeríu, hann heldur Kelechi Iheanacho út úr byrjunarliðinu. Hann er búinn að skora fjögur mörk í 20 landsleikjum.
Odion Ighalo er framherji númer eitt hjá Nígeríu, hann heldur Kelechi Iheanacho út úr byrjunarliðinu. Hann er búinn að skora fjögur mörk í 20 landsleikjum.
Mynd: Getty Images
Indriði í leik með KR í fyrra. Hann er í dag sérfræðingur í Pepsi-mörkunum.
Indriði í leik með KR í fyrra. Hann er í dag sérfræðingur í Pepsi-mörkunum.
Mynd: Raggi Óla
Odion Ighalo er sóknarmaður sem Ísland þarf að passa vel upp á þegar morgundagurinn gengur í garð. Ísland mætir Nígeríu á HM á morgun í mikilvægum leik í riðlakeppninni.

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, veit svo sem alveg hver Ighalo er og örugglega íslenskir fótobltaunnendur líka. Ighalo spilaði í ensku úrvalsdeildinni með Watford áður en hann samdi við Changchun Yatai í Kína í fyrra. Þar hefur Ighalo verið að skora reglulega eins og á flestum stöðum sem hann hefur verið á.

Ferill Ighalo, sem er 29 ára, tók á loft hjá Lyn í Noregi árið 2007. Þar skoraði hann mikið og vakti athygli Udinese í kjölfarið. Indriði Sigurðsson, fyrrum landsliðsmaður Íslands, spilaði með Ighalo hjá Lyn og vandar þessum sterka framherja kveðjurnar.

„Hann er mjög sterkur og hraður, allavega þegar ég spilaði með honum," sagði Indriði við Fótbolta.net. „Þetta er ósköp góður drengur og ekkert rugl á honum. Hann er strangtrúaður kristinn drengur og var ósköp blíur og jákvæður, alltaf brosandi og fannst gaman að dansa eins og mörgum Nígeríumönnum sem ég hef spilað með. Hann er mjög góður í fótbolta."

Ighalo var aðeins 18 ára þegar Indriði spilaði með honum.

„Hann hefur skorað á öllum stöðum sem hann hefur spilað á," segir Indriði og heldur áfram. „Auðvitað hefur maður áhyggjur af honum en maður hafði líka áhyggjur af Messi."

„Ighalo er með svakalega skotfintu, maður heldur alltaf að hann sé að fara að skjóta og hendir sér fyrir, það var að minnsta kosti þannig þegar ég spilaði með honum."

„Hann er kröftugur, hraður og hreyfanlegur, hann er líka með góða leikmenn í kringum sig og það verður í nógu að snúast fyrir Íslendingana eins og síðasta leik."

„Öðruvísi lið"
„Nígería, þetta er öðruvísi lið. Þeir eru líkamlega sterkir, ósköp hraðir en líka teknískir að mörgu leyti. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi leikur verður. Það þarf alveg jafnmikinn fókus þarna, gegn Nígeríu, eins og gegn Argentínu."

Indriði telur að gott skipulag geti reynst frábærlega gegn Nígeríu, en Afríkuþjóðir eru ekki endilega þekktar fyrir það að vera mjög skipulagðar á fótboltavellinum. Hann bendir líka á það að föst leikatriði komi til með að reynast Íslandi vel.

„Fyrirfram er þetta leikurinn sem við áttum að eiga mestan möguleika í, en við áttum líka að eiga mestan möguleika í Ungverjaland á EM, allt hitt var bónus," sagði Indriði að lokum en leikur Íslands og Ungverja á EM endaði í jafntefli.

Ísland mætir Nígeríu á morgun klukkan 15:00.
Athugasemdir
banner
banner
banner