fim 21. júní 2018 12:00
Magnús Már Einarsson
Ungir strákar keppast um að vera eins og Hannes á æfingum
Icelandair
Allir með hanska á æfingu hjá 6. flokki KR.
Allir með hanska á æfingu hjá 6. flokki KR.
Mynd: Auðunn Örn Gylfason
Algjör sprenging hefur orðið í markmannsáhuga hjá ungum fótboltadrengjum á Íslandi eftir stórleik Hannesar Þórs Halldórssonar gegn Argentínu um síðustu helgi.

Hannes var maður leiksins en hann varði meðal annars vítaspyrnu frá Lionel Messi.

Á æfingum hjá 6. flokki KR hefur orðið gífurleg fjölgun á leikmönnum sem mæta með markmannshanskar á æfingu. Hannes spilaði sjálfur með meistaraflokki KR frá 2011 til 2013.

„Eftir að Hannes varði vítið á móti Messi virðist lungað úr flokknum hafi farið og útvegað sér markmannshanska því öllum langar að vera eins og Hannes," sagði Auðunn Örn Gylfason, þjálfari hjá 6. flokki KR, við Fótbolta.net í dag.

„Strákar sem höfðu áður bara verið útispilarar keppast nú um að fá að vera á milli stanganna í skotæfingum og spili. Æfingarnar í dag fara því bara í það að passa að allir fái að fara í markið."

„Þetta er bara skemmtilegt því maður getur rétt ímyndað sér hversu miklar stjörnur strákarnir í íslenska liðinu eru í augum guttanna."


Hannes verður í eldlínunni á morgun þegar íslenska landsliðið mætir Nígeríu í Volgograd.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner