banner
   sun 21. júní 2020 21:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Þrjú lið sem hafa fullt hús stiga
Damir var hetja Blika.
Damir var hetja Blika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Borg var nálægt því að skora draumamark með sinni fyrstu snertingu.
Arnór Borg var nálægt því að skora draumamark með sinni fyrstu snertingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steven Lennon heldur áfram að skora.
Steven Lennon heldur áfram að skora.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Það eru þrjú lið saman á toppi Pepsi Max-deildar karla eftir tvær umferðir með fullt hús stiga. Þessi lið eru: Breiðablik, FH og Stjarnan.

Stjarnan vann Fjölni fyrr í dag, en núna fyrir stuttu voru tveir leikir að klárast.

Lærisveinar Óskars Hrafns Þorvaldssonar í Breiðabliki fóru í Árbæ og mættu þar Fylkismönnum í ágætis leik. Heimamenn komust næstum því yfir á 20. mínútu þegar Sam Hewson setti boltann í innanverða stöngina. „Þarna héldu allir að væri komið mark, stúkan byrjaði að fagna en stöngin bjargar Blikunum," skrifaði Egill Sigfússon í beinni textalýsingu.

Bæði lið fengu sín færi í fyrri hálfleiknum og hefði Fylkir kannski átt að fá vítaspyrnu seint í hálfleiknum. Staðan var þó markalaus að honum loknum.

Á 66. mínútu dró heldur betur til tíðinda þegar Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Blika, skoraði. Gestirnir úr Kópavogi fögnuðu markinu, en svo þegar þeir voru búnir að fagna þá var markið dæmt af. Boltinn fór nefnilega í hendi Höskulds áður en hann skoraði.

Arnór Borg Guðjohnsen, sonur Arnórs Guðjohnsen, kom inn á fyrir Fylki á 70. mínútu og hann var nálægt því að skora glæsilegt mark með sinni fyrstu snertingu. Skot hans, á lofti, fór hins vegar rétt fram hjá markinu. Tíu mínútum eftir það kom eina mark leiksins þegar Damir Muminovic, miðvörður Breiðabliks, skoraði eftir hornspyrnu.

Fylkir náði ekki að svara því og lokastaðan í Árbænum 1-0 fyrir Breiðablik. Blikar þurftu að hafa meira fyrir þessu en í fyrsta leik sínum gegn Gróttu. Fylkir er án stiga eftir tvo leiki.

Í Hafnarfirði fór Fimleikafélagið með sigur af hólmi gegn Skagamönnum þar sem öll þrjú mörk leiksins komu í seinni hálfleiknum.

FH-ingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og þeir náðu forystunni í byrjun þess seinni þegar Jónatan Ingi Jónsson skoraði þegar hann keyrði inn af kantinum og átti skot úr þröngu færi sem endaði í markinu. Stuttu síðar skoraði Steven Lennon sitt þriðja mark í deildinni þegar hann skoraði eftir flott spil.

ÍA spilaði ekki sérlega vel í leiknum, en gestirnir af Skaganum náðu að minnka muninn úr vítaspyrnu á 84. mínútu. Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði af punktinum, eins og hann gerði gegn KA í fyrstu umferð.

Lengra komst ÍA hins vegar ekki og lokatölur 2-1 fyrir FH sem er eins og áður segir með fullt hús. ÍA er með þrjú stig.

FH 2 - 1 ÍA
1-0 Jónatan Ingi Jónsson ('51 )
2-0 Steven Lennon ('57 )
2-1 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('84 , víti)
Lestu nánar um leikinn

Fylkir 0 - 1 Breiðablik
0-1 Damir Muminovic ('81 )
Lestu nánar um leikinn

Úrslit 2. umferðar:
KA 0 - 0 Víkingur R.
Grótta 0 - 3 Valur
KR 0 - 3 HK
Fjölnir 1 - 4 Stjarnan
Fylkir 0 - 1 Breiðablik
FH 2 - 1 ÍA
Athugasemdir
banner
banner
banner