þri 21. júlí 2020 11:00
Magnús Már Einarsson
Jói rýnir í toppslaginn: Má búast við skemmtilegri skák
Breiðablik og Valur mætast í stórleik í kvöld.
Breiðablik og Valur mætast í stórleik í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Kristinn Gunnarsson
Jóhann Kristinn Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Breiðablk og Valur mætast í toppslag í Pepsi Max-deild kvenna á Kópavogsvelli klukkan 19:15 í kvöld. Þessi lið fóru bæði taplaus í gengum mótið í fyrra og áttu í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. Þau eru einnig taplaus í sumar og búast má við hörkuleik í kvöld.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi Max-deild kvenna, skoðaði stöðuna fyrir stórleik kvöldsins.

Jóhann rýnir í stórleikinn
Algjör stórleikur er í dag í Pepsi Max deild kvenna. Þetta eru liðin tvö sem berjast um titilinn þetta árið. Það er voðalega erfitt að blanda inn fleiri liðum í þá baráttu.

Liðin hafa farið afar sannfærandi af stað í deildinni og við fyrstu sýn virðast þau hreinlega á allt öðru leveli en hin 8 liðin. Breiðablik reyndar leikið tveimur leikjum færra en Valur, eða fjóra leiki, skorað 15 mörk og eiga enn eftir að fá á sig mark!

Valur með markatöluna 18:3 og sýndu að þær eru mannlegar þegar þær gerðu jafntefli við Fylki. Þær reyndar spiluðu færri megnið af leiknum. En Fylkir er einmitt liðið sem virðist gera sig hvað líklegast til að halda þessum tveim risum á tánum í sumar. Svona miðað við byrjunina – en leyfum nú mótinu að komast almennilega af stað áður en við förum að gaspra meira um tveggja hesta hlaup og allan þann klysjupakka.

Á síðasta ári endurspegluðu báðir leikir liðanna í deildinni mikilvægi þeirra og hörkuna í baráttunni um titilinn. Þeir enduðu báðir í jafntefli og voru hörku viðureignir.

Það er nákvæmlega sama upp á teningnum í ár. Liðin vita bæði hvað þýðir að bera sigur úr býtum í þessum leikjum. Eða kannski öllu heldur hvað það getur þýtt að tapa!

Elín Metta hefur verið sjóðandi heit fyrir Val í byrjun móts og skorað 8 mörk í þessum 6 leikjum. Hlín Eiríksdóttir hefur einnig verið skæð fyrir framan mark andstæðinganna og er nú þegar komin með 5 mörk. Berglind Björg þekkir vel að skora og ætlar ekki að gefa neitt eftir í baráttunni um gullskóinn þar sem hún hefur þegar gert 6 mörk í þessum 4 leikjum sem Breiðablik hefur leikið í sumar. Alexandra Jóhannsdóttir hefur einnig verið á skotskónum en hún hefur gert 4 mörk í 4 leikjum fyrir Blika.

Þjálfarar liðanna eru refir sem vita hvað þeir eru að gera. Það má búast við skemmtilegri skák í þessum flotta leik. Það er eitthvað sem segir mér að þó báðir viti hve dýrt það getur verið að tapa þá hafa þeir kjark til að sækja til sigurs og því spái ég markaleik.

Breiðablik á heimavelli svo ég segi að sigurinn detti þeirra megin að þessu sinni. 4-3 í frábærum fótboltaleik sem býður upp á spennu, baráttu og hita milli liðanna sem og 7 frábær mörk!
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner