Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 21. ágúst 2018 20:21
Ívan Guðjón Baldursson
2. deild: Pétur Theódór kom Gróttu á toppinn
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Grótta 3 - 2 Vestri
0-1 Pétur Bjarnason ('10)
1-1 Arnar Þór Helgason ('19)
1-2 James Mack ('41)
2-2 Pétur Theódór Árnason ('57)
3-2 Pétur Theódór Árnason ('88)

Grótta tók á móti Vestra í mikilvægum toppbaráttuslag í 2. deild karla og komust gestirnir yfir snemma leiks.

Pétur Bjarnason slapp í gegn og stakk Arnar Þór Helgason af í vörn Gróttu og kláraði frábærlega með föstu skoti.

Arnar Þór var þó ekki lengi að bæta upp fyrir mistökin því hann var búinn að jafna með skallamarki eftir hornspyrnu níu mínútum síðar.

Grótta komst nálægt því að komast yfir en það voru gestirnir sem skoruðu rétt fyrir leikhlé. James Mack skoraði þá úr auðveldu færi eftir frábæran undirbúning frá Sergine Modou Fall, sem sólaði vörn heimamanna upp úr skónum.

Pétur Theódór Árnason jafnaði fyrir Gróttu snemma í síðari hálfleik og varð svo hetja leiksins þegar hann stangaði fyrirgjöf frá hægri í netið rétt undir lokin.

Grótta komst á topp deildarinnar með sigrinum og er þar tveimur stigum fyrir ofan Vestra.

Nú bíða leikmenn Gróttu spenntir eftir úrslitum úr öðrum leikjum deildarinnar þar sem Kári og Afturelding eigast við í toppslag. Sigurliðið þar tekur toppsætið af Gróttu.
Athugasemdir
banner
banner