þri 21. ágúst 2018 19:30
Ívan Guðjón Baldursson
Kante bað stuðningsmann Arsenal afsökunar
Mynd: Getty Images
N'Golo Kante er þekktur fyrir að vera mjög feiminn og fínn náungi auk þess að vera einn af bestu miðjumönnum heims.

Kante er lykilmaður hjá Chelsea og var í byrjunarliðinu er liðið lagði nágranna og erkifjendur sína í Arsenal að velli um helgina.

Eftir leikinn var Kante úti á röltinu þegar hann hitti stuðningsmann Arsenal sem bað um að fá mynd með honum.

Stuðningsmaðurinn heitir Sharky á samfélagsmiðlum og er nokkuð vinsæll, með 11 þúsund fylgjendur á Twitter og tæplega 24 þúsund á Instagram.

Þegar Sharky sagðist vera stuðningsmaður Arsenal brosti Kante til hans og sagði einfaldlega „fyrirgefðu".

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sögur af Kante líta dagsins ljós. Olivier Giroud lýsti því á dögunum hvernig Kante var of feiminn til að biðja um að halda á bikarnum eftir að hafa unnið heimsmeistaramótið með Frakklandi.

Þá er mjög lítið vitað um einkalíf Kante, annað en að hann keyrir ennþá sömu Mini Cooper bifreið og hann keypti sér þegar hann kom fyrst til Englands fyrir þremur árum.




Athugasemdir
banner
banner
banner
banner