Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 21. ágúst 2018 20:05
Ívan Guðjón Baldursson
Pepsi-kvenna: Breiðablik á toppinn - Stjarnan skoraði sjö
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik er komið aftur á topp Pepsi-deildar kvenna eftir þægilegan 2-0 sigur gegn KR.

Blikar voru betri allan leikinn en Vesturbæingar stóðu í þeim og var staðan markalaus þar til í síðari hálfleik.

Hildur Antonsdóttir kom heimamönnum þá yfir eftir mistök Ingibjargar Valgeirsdóttur í marki KR. Hún kýldi hornspyrnu beint fyrir fætur Hildar sem skoraði.

Blikar tvöfölduðu forystuna tæpri mínútu síðar þegar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir keyrði upp hægri kantinn og gaf frábæra fyrirgjöf beint á kollinn á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem brást ekki bogalistin.

Breiðablik er með tveggja stiga forystu á Þór/KA þegar fjórar umferðir eru eftir. Toppliðin mætast laugardaginn 8. september.

Stjarnan rúllaði þá yfir HK/Víking í fjarveru Hörpu Þorsteinsdóttur. Guðmunda Brynja Óladóttir, Katrín Ásbjörnsdóttir og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skoruðu tvennu hvor.

Stjarnan komst upp í þriðja sæti með sigrinum en er sjö stigum frá titilbaráttunni.

Breiðablik 2 - 0 KR
1-0 Hildur Antonsdóttir ('59)
2-0 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('60)

Stjarnan 7 - 1 HK/Víkingur
1-0 Guðmunda Brynja Óladóttir ('3)
2-0 Katrín Ásbjörnsdóttir ('11)
3-0 Guðmunda Brynja Óladóttir ('23)
4-0 Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir ('52)
4-1 Arna Eiríksdóttir ('62, víti)
5-1 Katrín Ásbjörnsdóttir ('63)
6-1 Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir ('75)
7-1 Birna Jóhannsdóttir ('85)
Athugasemdir
banner