Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 22. janúar 2019 12:47
Magnús Már Einarsson
Þjálfari Nantes ósáttur með Kolbein: Alvöru vandamál fyrir félagið
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vahid Halilhodzic, þjálfari Nantes, skaut föstum skotum á Kolbein Sigþórsson á fréttamannafundi í gær. Kolbeinn hefur æft með varaliði Nantes á tímabilinu en hann hefur ekki verið í myndinni hjá Halilhodzic.

Kolbeinn spilaði með íslenska landsliðinu síðastliðið haust og skoraði í vináttuleik gegn Katar. Hann hefur hins vegar verið í frystikistunni hjá Nantes eftir að hann sneri aftur eftir meiðsli síðastliðið sumar.

Nantes seldi framherjann Emiliano Sala til Cardiff um síðustu helgi en Kolbeinn er hins vegar ekkert að færast nær því að fá tækifærið að sögn Halilhodzic.

„Mér var sagt að treysta ekki á hann. Ég hef tvisvar rætt við hann. Hann bað um að fá að æfa með aðalliðinu en ég vildi sjá hann vera í varaliðinu," sagði Halilhodzic.

„Því miður er þetta alvöru vandamál fyrir félagið. Hann hleypur ekki og hann æfir þegar hann vill. Við gætum skrifað bók um þetta allt saman. Ég þarf að leysa önnur vandamál fyrst áður en ég hugsa um Sigþórsson."

Hinn 28 ára gamli Kolbeinn sagði í viðtali við Fótbolta.net í október að allt benti til þess að hann myndi fara frá Nantes í janúar en lítið hefur heyrst af sögusögnum þess efnis í þessum mánuði.

Kolbeinn er samningsbundinn Nantes til 2020 en í desember sagði Waldemar Kita, forseti félagsins, að viðræður væru í gangi um riftun á samningi.

Kolbeinn, sem er næstmarkahæsti leikmaðurinn í sögu íslenska landsliðsins, fór til Nantes árið 2015 eftir að hafa áður leikið með AZ Alkmaar og Ajax.
Athugasemdir
banner
banner
banner