Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 22. janúar 2023 18:32
Brynjar Ingi Erluson
England: Nketiah hetja Arsenal gegn Man Utd
Eddie Nketiah skoraði tvö og var hetja Arsenal í kvöld
Eddie Nketiah skoraði tvö og var hetja Arsenal í kvöld
Mynd: Getty Images
Bukayo Saka skoraði annað mark Arsenal og var það af dýrari gerðinni
Bukayo Saka skoraði annað mark Arsenal og var það af dýrari gerðinni
Mynd: EPA
Marcus Rashford skoraði glæsilegt mark í fyrri hálfleiknum en það dugði ekki til
Marcus Rashford skoraði glæsilegt mark í fyrri hálfleiknum en það dugði ekki til
Mynd: Getty Images
Arsenal 3 - 2 Manchester Utd
0-1 Marcus Rashford ('17 )
1-1 Edward Nketiah ('24 )
2-1 Bukayo Saka ('53 )
2-2 Lisandro Martinez ('59 )
3-2 Edward Nketiah ('90 )

Arsenal er með fimm stiga forystu á toppnum eftir 3-2 sigur á Manchester United á Emirates-leikvanginum í kvöld. Eddie Nketiah var hetja liðsins en hann skoraði sigurmarkið með hælnum undir lok leiksins.

Heimamenn ógnuðu mikið í byrjun leiks og var það ávísun á fjörugan leik en það var því gegn gangi leiksins er Marcus Rashford tók forystuna fyrir Manchester United á 17. mínútu.

Það gerði hann eftir magnað einstaklingsframtak. Hann tók gabbhreyfingu á Thomas Partey fyrir utan teiginn, áður en hann þrumaði boltanu í vinstra hornið. Glæsilegt mark í alla staði og alvöru byrjun á leiknum.

Heimamenn fóru strax í leit að jöfnunarmarki og það tók aðeins sjö mínútur að ná því markmiði. Granit Xhaka átti laglega fyrirgjöf inn í teiginn og þar var Eddie Nketiah einn og óvaldaður í teignum, klár í að stanga boltann í netið, sem og hann gerði. Aaron Wan-Bissaka leikinn grátt í teignum og skrifast þetta á hann.

Það var enginn svakalegur munur á liðunum í fyrri hálfleiknum og 1-1 sanngjarnt í hálfleik.

Bukayo Saka sýndi hvað hann er fær um að gera er hann kom Arsenal í forystu á 53. mínútu. Englendingurinn fékk boltann hægra megin við teiginn, lagði boltann á vinstri fótinn og hamraði honum í vinstra hornið. David De Gea sá boltann seint og átti því ekki möguleika í að verja skotið.

Gestirnir hengdu ekki haus. United fékk hornspyrnu á 59. mínútu en Aaron Ramsdale gerði mistök sem kostuðu liðið. Hann blakaði boltanum út í teiginn og á Lisandro Martínez sem sá skoppandi bolta og kastaði hausnum í hnan og í þaknetið.

Saka var nálægt því að gera sigurmark Arsenal í leiknum tuttugu mínútum fyrir leikslok en hann reyndi það sama og í markinu sem hann skoraði fyrr í leiknum. Í þetta sinn fór boltinn af Christian Eriksen og í utanverða stöngina.

Aftur fékk Arsenal dauðafæri til að gera út um leikinn er boltinn datt fyrir Nketiah í teignum á 84. mínútu en De Gea var eins og köttur í markinu og sýndi góð viðbrögð með því að verja skotið.

Nketiah tókst að bæta upp fyrir það á 90. mínútu og það með geggjaðri hreyfingu í teignum. Leandro Trossard keyrði að teignum, lagði hann til vinstri á Oleksandr Zinchenko sem kom með fyrirgjöfina. Martin Ödegaard mætti boltanum og reyndi skot en boltinn fór af varnarmanni og til Nketiah sem sýndi snögg viðbrögð og náði að skora á lofti með hælnum. VAR skoðaði mögulega rangstöðu í markinu en það reyndist gott og gilt.

Þetta reyndist síðasta mark leiksins. Ótrúlegur sigur hjá Arsenal sem sýndi það og sannaði að ekkert getur stöðvað liðið. Arsenal er með fimm stiga forystu á toppnum og geta stuðningsmenn Man Utd hætt að láta sig dreyma um titilinn í ár.
Athugasemdir
banner
banner