Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 22. mars 2019 14:35
Arnar Daði Arnarsson
Arnar Viðars: Jákvæður fyrsti leikur
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson þjálfari U-21 árs landsliðs Íslands.
Arnar Þór Viðarsson þjálfari U-21 árs landsliðs Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska U21 landsliðið mætti því tékkneska í æfingaleik á Spáni í dag og lauk leikum með 1-1 jafntefli. Þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn nýs þjálfara Arnars Þórs Viðarssonar og aðstoðarmanns hans, Eiðs Smára Guðjohnsen.

„Þetta var sanngjörn úrslit. Þetta var mjög lokaður fyrri hálfleikur og í rauninni engin færi. Þeir fengu eitt færi undir lok fyrri hálfleiks eftir að við misstum boltann á slæmum stað en annars var lítið að frétta."

Staðan var markalaus þar til á 66. mínútu þegar Stjörnumaðurinn Alex Þór Hauksson kom Íslandi yfir.

„Við vorum mjög ánægðir með seinni hálfleikinn. Við náðum að skapa okkur aðeins meiri aðstöðu til að gera eitthvað án þess að við höfum fengið mörg opin færi. Fyrir utan markið voru 4-5 moment í seinni hálfleik þar sem við náum skoti á rammann eða skallafæri eða komnir í aðstöðu til að gera eitthvað," sagði Arnar Þór en Ondrej Sasinka jafnaði skömmu síðar fyrir Tékka og reyndist það síðasta mark leiksins.

„Þar á móti fengu þeir líka sín tækifæri þannig þegar upp er staðið er þetta nokkuð sanngjörn úrslit. Við erum mjög ánægðir með frammistöðu liðsins. Við höfum aðeins náð fjórum æfingum saman og við erum að mæta liði frá Tékklandi sem hefur verið saman með sama þjálfara í þrjú ár. Þetta lið komst í lokakeppni fyrir ári síðan þannig það er mjög jákvætt að strákarnir gerðu nokkurnvegin allt það sem við þjálfararnir vorum að leitast eftir. Sérstaklega ákveðin varnarvinna sem var að virka mjög vel."

„Sóknarleikurinn tekur aðeins meiri tíma og aðeins erfiðara að koma honum inn en það kemur allt og þetta var mjög jákvæður fyrsti leikur."

Íslenski hópurinn ferðast í kvöld til Katar. Þar mætir liðið heimamönnum á mánudaginn.

„Það er frábært að fá þann leik líka. Sá leikur var ekki í planinu upphaflega en við vorum heppnir að Katar vildu fá leik og við gripum það að sjálfsögðu. Þar sem við erum með 20 stráka í þessari ferð þá vildum við sjá þá alla í leik," sagði Arnar Þór en allir leikmenn íslenska liðsins komu við sögu í dag fyrir utan Elías Rafn markmann sem mun fá tækifærið í Katar.

„Fyrir mig og Eið Smára er það mikilvægasta að sjá ákveðnar hreyfingar og sjá þessa stráka í leik. Það er tvennt ólíkt að sjá þá æfa og svo í leik. Við munum leyfa öðrum strákum að byrja leikinn gegn Katar og breyta aðeins til," sagði Arnar Þór Viðarsson að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner