Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fös 22. mars 2019 12:00
Arnar Daði Arnarsson
Eyjólfur Sverris sá besti sem Bjarni Jó hefur þjálfað
Eyjólfur Sverrisson átti frábæran feril sem leikmaður.
Eyjólfur Sverrisson átti frábæran feril sem leikmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Jóhannsson hefur þjálfað ÍBV tvívegis. Hann ræðir þá tíma í Miðjunni.
Bjarni Jóhannsson hefur þjálfað ÍBV tvívegis. Hann ræðir þá tíma í Miðjunni.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Bjarni Jóhannsson einn reynslumesti þjálfari landsins var gestur Miðjunnar á Fótbolta.net í vikunni.

Þar var farið yfir þjálfaraferil Bjarna frá upphafi til dagsins í dag. Í lok þáttar fékk hann það verðuga verkefni að velja besta leikmann sem hann hefur þjálfað. Bjarni var ekki í miklum vandræðum með að velja þann leikmann.

„Ég held að sá besti og sá eftirminnilegasti sé vinur minn, Eyjólfur Sverrisson. Hann hlýtur að vera í fyrsta sæti. Það er svo frábært að pæla í hans ferli. Hann kemur úr liði sem var í þriðju efstu deild þegar við kynnumst og hann spilar aldrei í efstu deild á Íslandi. Hann er seldur til Stuttgart í Þýskalandi og verður meistari þar. Hann er síðan seldur til Besiktas í Tyrklandi og verður meistari þar," eftir þann tíma tók við nýr kafli í ferli Eyjólfs aftur í Þýskalandi.

„Hann fer síðan til Herthu Berlin og er einn af þeim leikmönnum sem rífur það lið uppúr holunni og er einn af dáðari mönnum Herthu Berlinar í sögunni og liðið fer upp í Bundesliguna og nær sæti í Meistaradeildinni tvívegis. Hann á mjög farsælan feril sem landsliðsmaður. Ég held að hann sé í fyrsta sæti með fullri virðingu fyrir öllum þeim leikmönnum sem ég hef þjálfað og hafa farið í atvinnumennsku," sagði Bjarni og minnist þess hve sterkur Eyjólfur var sem alhliða íþróttamaður.

„Hann var gríðarlega vel þjálfaður, hann var víst mjög duglegur að æfa þegar hann var yngri. Hann var alhliða íþróttamaður og góður í eiginlega öllu. Hann var frábær körfuboltamaður á sínum tíma og hann hafði ákveðna hæfileika. Hann var framherji og skoraði mikið og geysilega sterkur í loftinu og síðar kom það í ljós að það var sama hvar hann var settur á vellinum í atvinnumennskunni að hann endaði sem miðvörður og var frábær þar."

Bjarni segir síðan stutta sögu af því hversu erfitt það var að sannfæra unglingalandsliðsþjálfarann til að gefa Eyjólfi tækifæri með U-21 árs landsliðinu. Bjarni segir að á þessum tíma hafi verið mjög erfitt fyrir leikmenn utan af landi að komast í landsliðin.

„Ég var mjög hrifinn af honum og allir á Sauðárkróki. Þetta var frábær fótboltamaður og það var verið að velja í U-21 árs landsliðið. Ég hringi og læt vita að það væri nú gáfulegt að kíkja á Eyjólf. Iouri Sedov sem þá var að þjálfa Víking R. var þjálfari U-21 árs landsliðsins og það verður að segjast alveg eins og er, að eftir mikla baráttu við að koma honum þangað inn þá tókst það loksins. Sedov var hrikalega ánægður með hann og frægastur er Eyjólfur sennilega fyrir það að skora fjögur mörk gegn Finnum í U-21 árs leik á Akureyri og þar með var björninn unninn," sagði Bjarni Jó um Eyjólf Sverrisson.

Hægt er að hlusta á Miðjuna með Bjarna Jó í heild sinni hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner