fös 22. mars 2019 22:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hamren eftir sinn fyrsta sigur: Mjög, mjög ánægður
Icelandair
Erik Hamren.
Erik Hamren.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn skoraði.
Viðar Örn skoraði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason.
Kári Árnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik Hamren, landsliðsþjálfari, var nokkuð brattur eftir sigur á Andorra í fyrsta leik Íslands í undankeppni EM 2020. Leikurinn endaði með 2-0 sigri Íslands. Fyrsti sigur Hamren sem landsliðsþjálfari Íslands.

„Ég er mjög ánægður með stigin þrjú sem við fengum í dag, að við skyldum halda hreinu og fá engin spjöld. Þetta var frábær leikur fyrir okkur," sagði Hamren á blaðamannafundi í Andorra.

„Við þurftum á góðri byrjun að halda ef við ætlum að ná markmiðum okkar. Ég er mjög, mjög ánægður. Við komum hingað og gerðum það sem við áttum að gera."

Þetta var fyrsti sigur Íslands í langan tíma, mjög kærkominn sigur. Var Svíinn stressaður fyrir leikinn?

„Stressaður er vitlausa orðið, en ég fann fyrir því í maganum. Við þurftum þrjú stig hérna. Það var mikilvægt. Það var gott að fá fyrsta markið snemma, en við vorum ekki öruggir. Þeir gátu fengið aukaspyrnu eða hornspyrnu og skorað. Það var mjög þægilegt að fá seinna markið."

Gott fyrir okkur og mjög gott fyrir hann líka
Viðar Örn Kjartansson var kallaður inn í hópinn eftir að Björn Bergmann Sigurðarson þurfti að draga sig úr honum vegna meiðsla. Viðar hafði tilkynnt að hann væri hættur í landsliðinu, en dró þá ákvörðun sína til baka.

Hann kom inn á sem varamaður í kvöld og skoraði annað mark Íslands í leiknum. Hans fyrsta mark í keppnisleik með landsliðinu.

Viðar beindi fagni sínu í áttina að Kjartani Henry Finnbogasyni.

„Ég get ekki tjáð mig um fagnið þar sem ég sá það ekki. Þetta var mark sem hann getur skorað; hann er góður í teignum. Þetta var fallegt mark. Gott fyrir okkur og mjög gott fyrir hann líka."

„Ég var með það í höfðinu að fá hann inn í hópinn þar sem Alfreð var í mesta lagi að fara að spila 70 mínútur. Í leik sem þessum vildi ég hafa níu, ef svo má segja."

Klettarnir okkar
Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson stóðu sína plikt í vörninni eins og svo oft áður. Þeir skoruðu báðir hátt í einkunnagjöf Fótbolta.net. Ragnar var valinn maður leiksins.

Hamren hrósaði þeim á blaðamannafundinum.

„Þeir eru klettarnir okkar og sýna það leik eftir leik. Þeir eru mjög sterkir sem leikmenn og persónuleikar. Ég er mjög ánægður með frammistöðu þeirra og gæðin sem þeir færa liðinu."

Hrósar leikmönnum í tengslum við gervigrasumræðuna
Fyrir leikinn kvartaði Hamren yfir gervigrasinu í Andorra. Það sást í leiknum að völlurinn var ekki sá besti. Hamren kvartaði yfir gervigrasinu í gær. Hann hrósar leikmönnum fyrir að hafa ekki gert það.

„Ég er sá eini sem hef kvartað. Það voru margar aðstæður í dag sem þú sérð ekki á náttúrulegu grasi. Við verðum að setja orkuna í það sem við getum haft áhrif á og við gátum ekki haft áhrif á völlinn."

„Leikmennirnir hafa verið frábærir og ekkert kvartað. Ég hef ekki heyrt neitt. Ég verð að hrósa leikmönnunum. Ég vildi koma þessu á framfæri fyrir leikinn, ekki eftir leikinn," sagði Hamren að lokum.

Næsti leikur Íslands er á mánudag gegn Heimsmeisturum Frakklands í París.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner