fös 22. mars 2019 15:30
Ívan Guðjón Baldursson
Mido rekinn eftir rifrildi við stuðningsmann
Mynd: Getty Images
Mido, sem var eitt sinn talinn efnilegasti knattspyrnumaður heims, er búinn að láta reka sig úr þjálfarastól Al Wehda eftir rifrildi við stuðningsmann félagsins á Twitter.

Mido tók við félaginu um miðjan desember og var því aðeins búinn að vera við stjórnvölinn í rúmlega þrjá mánuði þegar hann var rekinn.

„Vinsamlegast hættu sem þjálfari Al Wehda. Við skiljum þjálfunarstílinn þinn en hann er ekki að hjálpa okkur. Þú ert betri sem sérfræðingur í sjónvarpinu því orðin þín eru góð, en sem þjálfari ertu ekki svo góður," skrifaði stuðningsmaður á Twitter.

Svarið frá Mido kom öllum að óvörum því það innihélt svakalegt blótsyrði á arabísku sem þýðist sem „píka móður frænku þinnar." Þetta blótsyrði er svo slæmt að Mido eyddi út tístinu og sagði að það hefði einhver brotist inn á aðganginn sinn. Hann hafi ekki skrifað þetta sjálfur.

Stjórn Al Wehda gaf lítið fyrir þessa útskýringu og rak þjálfarann vegna tístsins. Komi í ljós að það hafi raunverulega verið brotist inn á aðganginn hans gæti hann verið ráðinn aftur í stöðuna.

„Ég virði ákvörðun stjórnarinnar, en brotist var inn á aðganginn minn og ég ætla að nota öll möguleg tól til að sanna sakleysi mitt," sagði Mido.

Mido lék meðal annars fyrir Ajax, Roma og Tottenham á skrautlegum ferli. Meiðsli settu strik í reikninginn hjá honum en hann gerði 13 mörk í 36 deildarleikjum á eina tímabilinu þar sem hann hélst heill hjá Tottenham.

Mido er goðsögn í Egyptalandi þar sem hann á 20 mörk í 51 landsleik.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner