Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 22. apríl 2019 15:15
Arnar Daði Arnarsson
Arnar Halls: Ætlum okkur í fremstu röð
Inkasso spá þjálfara og fyrirliða: 11. sæti Afturelding
Arnar Hallsson.
Arnar Hallsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Hanna Símonardóttir
Afturelding er spáð næsta neðsta sætinu í Inkasso-deildinni í sumar í spá þjálfara og fyrirliða. Arnar Hallsson þjálfari Aftureldingar, segir að sú spá komi sér ekki á óvart.

„Við erum nýliðar í deildinni með fáa leikmenn sem hafa reynslu af deildinni. Við erum með ungt lið og ekki hafa margir reyndir leikmenn söðlað um og gengið til liðs við okkur. Þannig að þetta er á margan hátt rökrétt niðurstaða. En mér finnst meira máli skipta það sem menn eiga eftir að gera heldur en hvað þeir hafa gert," sagði Arnar Hallsson í samtali við Fótbolta.net aðspurður hvort spáin komi honum á óvart.

„Markmiðið er að sanna það fyrir öllum að við séum meira en nógu skipulagðir, duglegir og góðir til að lifa af í Inkasso deildinni. Það gerum við með því að enda í efri hluta deildarinnar. Okkar leikmenn munu sanna það að þeir hafi vinnusemina, gæðin og einbeitinguna sem þarf til að afsanna þessa spá."

Arnar segist vera mjög ánægður með þá styrkingu sem liðið hefur fengið á leikmannamarkaðnum í vetur.

„Við höfum æft alveg gríðarlega vel í allan vetur og tekið miklum framförum. Við gerðum allir okkar besta og meira er ekki hægt að fara fram á. Að auki fengum við nokkra leikmenn til liðs við okkur sem hafa fallið vel inn í hópinn og bætt liðið. Hópurinn er mun þéttari í ár innan sem utan vallar."

Hann er spenntur fyrir komandi sumri og hlakkar til að takast á við liðin í Inkasso-deildinni. „Leikmennirnir eru meira en tilbúnir í að taka þetta skref áfram og byrja að vinna sig í áttina að Pepsi Max deildinni. Félagið og bæjaryfirvöld eru að uppgötva það að Afturelding er að þroskast hratt sem knattspyrnufélag. Við ætlum okkur í fremstu röð og það er lítill hópur fólks innan félagsins sem er ómetanlegur í þeirri vegferð."

Hann reiknar með því að styrkja liðið með fleiri leikmönnum áður en deildin fer af stað.

„Við ætlum okkur að æfa og keppa af mikilli ákefð í allt sumar. Halda áfram að bæta okkur sem lið og einstaklingar. Það er okkar leið að árangri. Hvað varðar nýja leikmenn þá munum við væntanlega bæta við okkur erlendum leikmanni eða tveimur."

Hann býst við fjórum liðum í sérflokki á toppi deildarinnar.

„Ég held að Þór, Víkingur Ó., Fjölnir og Keflavík verði í nokkrum sérflokki. Þessi lið eru ekki bara með marga reynda og góða leikmenn heldur líka þjálfara sem kunna að árangri. Önnur lið tel ég að muni vera skrefi eða tveimur á eftir þessum liðum og þau lið munu reita stig hvert af öðru," sagði Arnar Hallsson að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner