Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mán 22. apríl 2019 10:15
Arnar Daði Arnarsson
Palli Gísla: Tel okkur vera svona tveimur yfir pari
Inkasso spá þjálfara og fyrirliða: 12. sæti Magni
Páll Viðar þjálfari Magna.
Páll Viðar þjálfari Magna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Magni er spáð neðsta sætinu í Inkasso-deildinni í sumar í spá þjálfara og fyrirliða. Páll Viðar Gíslason, þjálfari Magna, segir að sú spá komi sér ekki á óvart.

„Þessi spá kemur okkur ekki á óvart enda hlýtur hún að byggjast á aldri og fyrri störfum Magna í þessari næst efstu deild," sagði Palli Gísla í samtali við Fótbolta.net sem segir að markmið liðsins séu skýr fyrir tímabilið.

„Markmiðið er að gera betur enn í fyrra. Þar af leiðandi að troða sokkum, ellegar japla á þeim sjálfir."

Páll Viðar segir að veturinn og undirbúningstímabilið hjá liðinu hafi gengið þokkalega þrátt fyrir allt.

„Við höfum átt ágætis leiki bæði í Kjarnafæðimótinu og í Lengjubikar. Við höfum einnig átt daprar frammistöður og fengið tölulega skelli gegn topp 12-14 bestu og öflugustu liðum landsins. Þannig að þegar talið er upp úr kössunum eftir veturinn tel ég okkur vera svona tveimur yfir pari en á siglingu og á uppleið."

Miklar breytingar hafa verið á leikmannahópi Magna frá síðasta sumri.

„Nokkuð margir leikmenn sem spiluðu bróðurpartinn af mótinu í fyrra eru ekki þátttakendur í partýinu fyrir þetta tímabil. Á móti kemur hefur Magni sem betur fer fengið fjölmarga unga og efnilega stráka frá Akureyri til liðs við okkur sem eru tilbúnir að láta á það reyna að láta ljós sitt skína í Inkasso með Magna," sagði Páll Viðar sem býst við því að Magni bæti við sig 3-4 leikmönnum áður en flautað verður til leiks í deildinni.

Varðandi toppbaráttuna í deildinni hafði hann þetta að segja.

„Ég spái því að þrjú lið skeri sig svolítið frá pakkanum og berjist um sæti í Pepsi-deildinni. Á meðan hin liðin reita hárið af hvort öðru og verða þá sérstaklega nýsk á að gefa frá sér punkta á heimavelli," sagði Magna, Páll Viðar Gíslason að lokum.
Athugasemdir
banner
banner