Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 22. apríl 2020 16:30
Elvar Geir Magnússon
Rúnar spenntur fyrir öðruvísi Íslandsmóti: Með góðan og stóran hóp
Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar er ánægður með breiddina hjá KR-ingum.
Rúnar er ánægður með breiddina hjá KR-ingum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er fallegur og góður dagur. Það hefði verið glæsilegt að byrja Íslandsmótið á svona góðum degi. Við hefðum getað boðið upp á frábæra byrjun á mótinu en það er ekkert hægt að gera í þessu," segir Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR.

Pepsi Max-deildin hefði átt að fara af stað í dag með opnunarleik Vals og KR en mótinu var frestað vegna heimsfaraldursins. Stefnan er nú sett á að flauta til leiks í deildinni í kringum 14. júní.

Mótið verður spilað mun þéttar en vanalega og mun líklega standa út október.

Ný áskorun fyrir þjálfara
„Við erum glaðir yfir því að Íslandsmótið verði væntanlega spilað. Þó það verði spilað þétt þá er það bara meiri áskorun fyrir okkur þjálfara og leikmenn að skipuleggja tímabilið. Það verður minna um æfingar, það verða fleiri leikir og svo endurheimt því það verður alltaf stutt í næsta leik. Sérstaklega er júlímánuðurinn mjög þéttur. Þetta verður ný áskorun fyrir okkur þjálfarana og nýta hópinn eins og við getum. Þetta verður öðruvísi Íslandsmót en þó álagið verði mikið þá reynir bara á okkur þjálfarana," segir Rúnar.

Ekki er vitað hvað verður um forkeppnir Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar í sumar.

„Maður veit ekkert hvað verður um Evrópukeppnina. Við vitum ekki hvenær það verður sett í þetta prógramm og hvaða möguleikar eru í að hliðra til fyrir þá. Við verðum bara að taka því. Það vilja allir spila og félögin þurfa á því að halda fjárhagslega að fá þetta af stað. Liðunum og almenningi þyrstir í að mótið verði spilað, svo ég tali nú ekki um ykkur fjölmiðla sem viljið fá þetta umfjöllunarefni."

Búast má við því að samkomubann yfir 100 manns verði í gildi þegar Íslandsmótið fer af stað og því ljóst að það verður leikið fyrir framan fáa áhorfendur.

„Það má búast við því. Svo er spurning hversu margir þora að mæta þegar þessu verður létt af og fleiri mega mæta. Við þurfum bara að halda áfram að hlýða þessu fólki sem hefur verið að stjórna sem hefur gert það mjög faglega og afskaplega vel. Við förum bara eftir reglum og gerum það besta úr þessu. Það verða fleiri heima að horfa í sjónvarpinu en það er hægt að gera meira úr þessu í gegnum samfélagsmiðla til dæmis svo fólk geti tekið þátt," segir Rúnar.

KR er ekki að fara að bæta neinu við
Emil Ásmundsson sem KR fékk frá Fylki síðasta haust verður frá út allt tímabilið vegna meiðsla en að öðru leyti segir Rúnar að allir sínir menn ættu að vera klárir þegar mót hefst. Þeir leikmenn sem voru að glíma við meiðsli í vetur eiga að vera búnir að jafna sig.

„Emil er í sinni endurhæfingu og það tekur tíma. Að öðru leyti erum við með flestalla heila og menn eru á góðri siglingu," segir Rúnar sem er ánægður með sinn hóp og hyggst ekki bæta neinu við.

„Við erum ekki að fara að bæta neinu við. Við erum með þéttan og góðan hóp. Við teljum okkur vera með stóran og góðan hóp og vera klára í þetta. Við lentum í töluvert af meiðslum í fyrra en hópurinn var það stór að við leystum það. Við nýttum breiddina vel í fyrra og mér sýnist við ekki vera verr staddir en þá."

„Við erum ágætlega brattir en þegar menn fara að hittast núna og átökin verða svo meiri í júní og menn fara út á gras. Þá verðum við að passa okkur upp á að missa ekki menn í meiðsli, tognanir og slíkt. Við þurfum að fylgjast vel með ástandinu á drengjunum. Það er ekkert öðruvísi núna en önnur ár," segir Rúnar Kristinsson.

Sjá einnig:
Rúnar ánægður með nýjar takmarkanir: Gríðarlegur munur
Athugasemdir
banner
banner
banner