Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
   mán 22. júní 2020 15:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jón Arnar Barðdal: Af hverju ekki bara að 'chippa' yfir hann?
Jón fagnar marki sínu gegn KR.
Jón fagnar marki sínu gegn KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í baráttunni við Kristin Jónsson, bakvörð KR.
Í baráttunni við Kristin Jónsson, bakvörð KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK lagði Íslandsmeistara KR, 3-0. Frábær sigur öflugrar liðsheildar.
HK lagði Íslandsmeistara KR, 3-0. Frábær sigur öflugrar liðsheildar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Arnar Barðdal átti frábæran leik fyrir HK gegn KR síðasta laugardag. Dugnaður hans og vinnusemi í fremstu víglínu var ein af helstu ástæðum þess að HK vann leikinn.

Hinn 24 ára gamli Jón Arnar skoraði þriðja mark HK í 3-0 sigrinum á Íslandsmeisturunum og átti hann einnig stoðsendingu í leiknum. Jón Arnar kom óvænt til HK í vor eftir að hafa verið í skóla í Bandaríkjunum og spilað í neðri deildunum undanfarin ár. Hann spilaði tvo leiki með KFG í þriðju deild árið 2018 og einn leik í 2. deildinni í fyrra.

Ég var í námi við University of Vermont síðastliðin fjögur ár og var að útskrifast. Því miður kom ég meiddur heim í maí 2018 og 2019, en mér gekk mjög vel á síðasta tímabili í Bandaríkjunum og var meiðslafrír. Þá tók ég þá ákvörðun að það væri rétti tíminn að reyna fyrir mér í Pepsi Max," segir Jón Arnar í samtali við Fótbolta.net.

„Það kom þannig til að ég fékk skilaboð frá fyrrverandi liðsfélaga eftir að hafa verið á æfingu hjá Stjörnunni um að koma í HK. Í framhaldinu var mér boðið að taka slaginn með þeim í sumar. Ég þekki Brynjar Björn þar sem hann þjálfaði mig í Stjörnunni og fannst þetta tilvalið."

Veist best sjálfur hvað ég get
Jón Arnar er uppalinn í Stjörnunni og lék hann með liðinu fjóra deildarleiki þegar liðið varð eftirminnilega Íslandsmeistari 2014. Hann lék síðast í efstu deild 2015, en núna er hann mættur aftur í deild þeirra bestu.

Hann segir upplifunina af leiknum gegn KR hafa verið frábæra. „Það var geggjuð upplifun að fá þann heiður að byrja þennan leik og spila í Frostaskjólinu. Brynjar lagði leikinn vel upp og það má segja að taktíkin hafi tekist upp 100 prósent," segir Jón Arnar sem var ískaldur þegar hann skoraði þriðja mark HK í leiknum. Hann vann boltann og kláraði með því að setja boltann yfir Beiti í marki KR-inga.

„Það kom ekkert sérstakt upp í hugann. Beitir stóð framarlega og völlurinn var blautur. Af hverju ekki að 'chippa' bara yfir hann?"

Eftir að Jón Arnar gekk í raðir HK þá var það nokkuð í umræðunni að hann væri leikmaður sem gæti ekki hjálpað HK í Pepsi Max-deildinni. Hann segist lítið hafa tekið eftir þeirri umræðu.

„Ég fylgist voðalega lítið með samfélagsmiðlum og þessi umræða hefur mjög lítil áhrif á mig. Það voru einhverjir vinir mínir sem nefndu við mig að það hefði umræða átt sér stað um að ég væri ekki í Pepsi Max klassa, en ég veit best sjálfur hvað ég get og vil sýna það í verki inn á vellinum, ekki í gegnum netið."


Erum með hörkulið og getum unnið alla
Sigur HK á Meistaravöllum var óvæntur, en Jón Arnar bendir á það að nóg sé eftir af þessu móti og ekki sé alveg hægt að missa sig í gleðinni, ef svo má að orði komast, þegar aðeins tvær umferðir eru búnar.

„Ég held að HK hafi sýnt það og sannað á síðasta tímabili að við erum með hörkulið og getum unnið alla. Ég veit ekki hvort við séum að koma eitthvað á óvart, en mótið er nýbyrjað og nóg eftir," segir hann og bætir við: „Stefnan hjá mér í sumar er að reyna að hjálpa mínu liði eins mikið og ég get, og gefa allt sem ég á þegar ég fæ tækifæri. Umfram allt ætla ég að hafa gaman af hlutunum og njóta þess að spila fótbolta."

Jón Arnar spilaði sem sóknarmaður í leiknum gegn KR, en hann getur leyst margar stöður framarlega á vellinum og sýndi hann það síðasta laugardag að hann er öflugt vopn í vopnabúri HK-inga.

Næsti deildarleikur HK er gegn Val, en næsti leikur liðsins er í Mjólkurbikarnum á Grenivík gegn Magna á miðvikudaginn.

Sjá einnig:
Geggjuð innkoma hjá Jóni Arnari Barðdal
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner