Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   sun 22. júlí 2018 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Mér finnst bara allt leiðinlegt í kringum KR í augnablikinu"
Grétar Sigfinnnur spilaði lengi með KR.
Grétar Sigfinnnur spilaði lengi með KR.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Grétar Sigfinnur Sigurðarson, fyrrum varnarmaður KR, Stjörnunnar, Þróttar, Vals og Víkings mætti í útvarpsþáttinn Fótbolta.net á X-inu 977 í gær. Þar var umræða um Pepsi-deildina.

Tómas Þór Þórðarson stjórnaði þættinum í gær en auk Grétars mætti Ingólfur Sigurðsson í þáttinn.

Mjög áhugaverð umræða skaðist um KR í þættinum en Grétar spilaði með KR frá 2008 til 2015 á meðan liðið var gríðarlega sigursælt. Grétar var lykilmaður í Vesturbænum.

Á þessu tímabili hefur KR ekki verið að spila vel og Grétar var ekki að skafa af hlutunum í gær.

KR er í sjötta sæti, fimm stigum frá Evrópusæti.

„Það er 100% möguleiki að KR geti náð Evrópusæti en að KR geri það er önnur spurning," sagði Grétar og bætti við að Evrópusæti yrði ekki niðurstaðan ef KR heldur áfram eins og liðið hefur verið að spila upp á þessu tímabili.

„Vægast sagt skelfilegt"
Rúnar Kristinsson, þjálfarinn sem vann titil á hverju ári með KR frá 2011 til 2014, sneri aftur í vetur og tók við í Vesturbænum. Það hefur ekki alveg gengið eftir því sem vonast var eftir.

„Þetta er vægast sagt skelfilegt, mér finnst bara allt leiðinlegt í kringum KR í augnablikinu. Menn sem hafa verið að standa sig vel síðustu ár, vinir mínir, hafa ekki sýnt neitt í sumar. Eina jákvæða er Pálmi, hann hefur verið notaður rétt í sumar. Hann er ekki þessi djúpi miðjumaður. Hann er gaur sem kann að fara inn í teiginn á seinni bylgjunni og skora."

„Það er stemningsleysi yfir liðinu, það vantar einhverja karaktera og að virkja fleiri menn - það sjá allir. Það er ótrúlega leiðinlegt andrúmsloft hjá KR."

KR er með elsta lið deildarinnar og fæsta uppalda leikmenn.

„Þetta er eiginlega nýtt lið undanfarin ár. Það er enginn eftir af þeim sem unnu þessa titla nema Óskar. Þetta er nýtt lið sem hefur verið búið til í kringum Bjarna (Guðjónsson) og Rúnar núna. Það er neikvæða við þetta gamla lið," segir Grétar og vill meina að þetta KR-lið sé ekki nægilega vel samstillt.

Það eru ekki margir uppaldir strákar að fá sénsinn með KR núna og það er auðvitað áhyggjuefni og sérstaklega fyrir þessa leikmenn sem eru að koma upp úr yngri flokkum í Vesturbænum. Um það sagði Grétar Sigfinnur:

„Ég vil ekki hafa stefnu KR að vera eins og Breiðablik, að það séu bara allt uppaldir leikmenn. Ég vil frekar að það sé samblanda af bæði Breiðablik og FH. Hjá FH voru ungir og efnilegir leikmenn að fá tækifæri en liðið líka að vinna titla."

KR spilar við Stjörnuna á heimavelli á eftir, klukkan 17:00. Þar eru tvö af fyrrum félögum Grétars að mætast.

Smelltu hér til að sjá Pepsi-umræðuna í útvarpinu í gær.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner