Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 22. júlí 2018 11:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Meyer enn samningslaus - Lítur of stórt á sjálfan sig
Max Meyer.
Max Meyer.
Mynd: Getty Images
Meyer í leik með Schalke. Hann er aðeins 22 ára og þykir efnilegur.
Meyer í leik með Schalke. Hann er aðeins 22 ára og þykir efnilegur.
Mynd: Getty Images
Þýski miðjumaðurinn Maximilian Meyer er samningslaus. Eftir síðasta tímabil rann Meyer út á samningi hjá Schalke.

Meyer, sem er 22 ára, hefur verið byrjunarliðsmaður hjá Schalke síðustu árin og þykir efnilegur leikmaður.

Á síðasta tímabili var Meyer færður aftar á völlinn og spilaði sem djúpur á miðjunni, en hann var vanur að spila í holunni. Síðasta tímabil er hann spilaði sem djúpur á miðjunni var að mörgu leyti gott fyrir Meyer, að minnsta kosti inn á fótboltavellinum.

Í apríl gagnrýndi Meyer yfirmann knattspyrnumála hjá Schalke, Christian Heidel, og sagðist vera að yfirgefa félagið vegna Heidel. Hann vildi ekki lengur vinna undir hans stjórn.

Schalke tók ekki vel í ummæli hans og var Meyer vikið frá æfingum með aðalliðinu það sem eftir var af tímabilinu. Hann spilaði ekki fleiri leiki fyrir félagið sem hann hafði verið hjá frá 2012.

Lítur of stórt á sjálfan sig
Meyer er klárlega með mikla hæfileika en hingað til í sumar hefur enginn viljað semja við hann.

Hver er ástæðan fyrir því?

Í frétt Sky Sports segir þýski blaðamaðurinn Dirk Grosse Schlarmann að Meyer líti of stórt á sjálfan sig og sé með of háar launakröfur.

„Meyer er með eitt vandamál - hann lítur of stórt á sjálfan sig. Allir í kringum hann, umboðsmaðurinn, fjölskyldan, þjálfararnir í ungaliðunum hafa sagt við hann að hann sé einn sá hæfileikaríkasti, 'þýski Messi' og eftir að hafa hlustað á það í einhvern tíma þá ferðu að trúa því," sagði Grosse Schlarmann.

„Hann vildi að félagið myndi virða sig eins og fyrrum leikmenn - Leon Goretzka, Klaas-Jan Huntelaar, Sane - og hann vildi fá meiri peninga og hafa stærri áhrif innan hópsins, en félagið brást ekki við eins og Meyer vildi."

„Umboðsmaðurinn hans sagði öllum að hann væri heimsklassaleikmaður sem á skilið að fá 8 milljónir evra í árslaun hjá einu af stærstu félögum heims. Núna verða þeir að átta sig á því að stærstu félögin telja þá ekki hafa rétt fyrir sér."

Umboðsmaður Meyer vonast til að koma stráknum í ensku úrvalsdeildina. Liverpool, Tottenham og Arsenal voru sögð hafa áhuga en talað hefur verið minna um það síðustu vikur. Meyer hefur einnig verið orðaður við lið í Frakklandi og Tyrklandi.

„Það er ekkert formlegt tilboð komið enn," segir Max Bielefeld, blaðamaður Sky í Þýskalandi. „Þeir fóru í viðræður við Marseille en launakröfurnar voru alltof háar."

Biefield segir að umboðsmaður Meyer vonist til þess að eitthvað enskt lið bíti á agnið áður en félagaskiptaglugginn þar lokar 9. ágúst. Félagaskiptaglugginn annars staðar í Evrópu mun klárast í lok ágúst.

„Að mínu mati er ekki þess virði að borga 8 milljónir evra á ári fyrir hann en á þessum markaði veit maður aldrei hvað gerist," bætti Biefeld við.

Meyer er aðeins 22 ára gamall og framtíð hans er í óvissu. Hann hefði getað haldið áfram í góðu umhverfi hjá Schalke en ætlar þess í stað að taka áhættu. Hver veit nema hann verði enn samningslaus þegar tímabilið byrjar - það mun koma í ljós.
Athugasemdir
banner
banner
banner