mán 22. október 2018 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ronaldo býst við sigri gegn Man Utd
Mynd: Getty Images
Cristiano Ronaldo verður að öllum líkindum í byrjunarliði Juventus sem heimsækir Manchester United í riðlakeppni Meistaradeildarinnar annað kvöld.

Ronaldo hélt fréttamannafund þegar hann mætti til Manchester enda gerði hann garðinn frægan sem leikmaður félagsins frá 2003 til 2009, áður en hann hélt til Real Madrid.

„Það er mjög sérstakt að koma aftur til Manchester, ég á góðar minningar héðan og hugsa strax til Sir Alex Ferguson. Ég sendi honum stórt faðmlag, hann hjálpaði mér mikið," sagði Ronaldo.

„Þetta verður erfiður leikur. Man Utd er með frábært lið og reyndan stjóra. Við berum virðingu fyrir Rauðu djöflunum en ég býst við sigri annað kvöld."

Ronaldo yfirgaf Real Madrid í sumar til að ganga til liðs við Juve þar sem hann mun líklega spila út ferilinn.

„Mér líður mjög vel hjá Juve, allir innan félagsins hafa hjálpað mér í aðlögunarferlinu og ég er að njóta mín í botn hérna.

„Ég vil ekki bera Real saman við Juve, þetta eru bæði stórkostleg félög. Þetta er nýr kafli í lífi mínu, eftir Real og Manchester."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner