mið 23. janúar 2019 14:00
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Axel Óskar: Þvílíkt heppinn með gen frá A til Ö
Axel Óskar í hótelgarðinum í Doha.
Axel Óskar í hótelgarðinum í Doha.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Á landsliðsæfingu fyrr í þessum mánuði.
Á landsliðsæfingu fyrr í þessum mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Í landsleiknum gegn Svíþjóð.
Í landsleiknum gegn Svíþjóð.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Í leik með U21-landsliðinu.
Í leik með U21-landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Axel og faðir hans, Andrés Guðmundsson.
Axel og faðir hans, Andrés Guðmundsson.
Mynd: Raggi Óla
Axel er með landsliðsdrauma.
Axel er með landsliðsdrauma.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á síðasta tímabili hjálpaði Axel Óskar Andrésson Viking frá Stafangri að endurheimta sæti í norsku úrvalsdeildinni. Hann lék hjá liðinu á lánssamningi frá Reading en norska félagið var það hrifið af frammistöðu íslenska varnarmannsins að hann var keyptur í lok nýliðins árs.

Fyrr í þessum mánuði lék Axel, sem verður 21 árs á sunnudag, sína fyrstu A-landsleiki. Hann spilaði í jafnteflisleikjunum gegn Svíþjóð og Eistlandi.

Fótbolti.net var í Katar og spjallaði við Axel á hóteli íslenska landsliðsins. Hann var augljóslega þakklátur fyrir að hafa verið valinn í hópinn hjá Erik Hamren í þetta verkefni.

„Það er geggjað. Gaman að fá að vera hluti af þessu og fá þetta tækifæri. Þetta er frábær staður til að vera á, toppaðstæður og allt til alls. Þetta er skemmtilegur undirbúningur fyrir EM og vonandi nær maður að sýna sig svo maður eigi einhvern möguleika á að komast í hópinn," sagði Axel en viðtalið var tekið fyrir leikina tvo.

Draumur Axels er að vera viðloðinn aðalhópinn þegar undankeppni EM fer af stað.

„Algjörlega. Ég er nýkominn alfarið til Viking frá Reading og fæ núna að spila aðalliðsbolta, verð ekki í einhverjum unglingabolta. Þá tel ég mig geta komist nær landsliðinu. Það fer enginn í landsliðið með því að spila í einhverju varaliði. Þetta er eitt skref í átt að því að komast nær aðalliðinu."

Axel hefur verið í öllum yngri landsliðum Íslands og þetta hefur verið tröppugangur upp, alls eru landsleikirnir orðnir 46 í öllum aldursflokkum.

Fljótur að koma sér í lykilhlutverk
Hvernig líkar honum lífið í Noregi?

„Rosalega vel. Það kom snögglega upp að ég var lánaður til Noregs, ég var kominn út degi eða tveimur eftir að ég heyrði af þessu. Svo gekk þetta bara svo ljómandi vel. Ég var á bekknum í fyrsta leik og hann tapaðist 3-0 gegn erkifjendunum í Sandnes Ulf," segir Axel.

„Eftir að var liðinu breytt og ég kom inn. Við töpuðum varla leik eftir að ég kom. Eftir það sýndu þeir mikinn áhuga á að kaupa mig. Þjálfarinn kom yfir til Englands til að hitta mig og reyna að sannfæra mig um að koma fyrir. Þegar áhuginn er svona mikill er varla hægt að segja nei, sérstaklega þegar liðið er komið upp í efstu deild. Það er algjörlega rétt skref fyrir mig að fara í flotta deild, spila aðalliðsbolta og þróast þannig sem leikmaður."

Viking er stórt félag í Noregi og fann Axel vel fyrir stærðinni þegar hann spilaði með liðinu á síðasta ári.

„Hvert sem við mættum þá voru allir extra viljugir til að vinna Viking. Mörgum liðsfélögum mínum fannst erfitt að gíra sig upp í suma leiki, voru óvanir svona litlum leikvöngum og svona. Mótherjar okkar voru mjög peppaðir að mæta okkur en svo þegar líða fór á leikina urðu þeir stressaðir. Við unnum marga leiki á síðustu 20-30 mínútunum," segir Axel.

„Viking er eitt stærsta félag Noregs en fjárhagsörðugleikar gerðu það að verkum að liðið fór niður. Nú eru meiri peningar komnir inn í þetta. Fyrst á að ná stöðugleika í efstu deild og svo er framtíðarplanið að komast aftur í hóp efstu liða. Ég vil vera hluti af því."

Ætla að virða deildina í döðlur
Axel býst við talsvert öðruvísi fótbolta núna þegar liðið er komið upp í efsu deild.

„Það var allt annað að spila gegn toppliðunum í B-deildinni en að leika gegn liðunum í neðri hlutanum. Það var miklu meiri hraði og styrkur og betra spil. Mér fannst það gott 'level' og býst við því að allir leikir verði þannig núna."

Hann gerir sér alveg grein fyrir því að góð frammistaða í B-deildinni gefur honum lítið þegar liðið er komið upp í efstu deild og að hann þarf að spila enn betur núna.

„Maður hefur séð marga fara í þessar deildir í Skandinavíu og líta á þær sem stökkpall. Auðvitað vil ég komast í stærri deild. Þegar maður var yngri lét maður sig ekki dreyma um Noreg, maður hugsaði um ensku úrvalsdeildina. Ég ætla að líta þetta sem frábært verkefni, ég gerði þriggja ára samning og mun virða þessa deild í döðlur. Ég hlakka rosalega mikið til þess að kynnast því hvernig þetta er," segir Axel.

Hvað ertu að gera hérna?
Axel fór frá Íslandi 2014 og fór þá í unglingalið Reading, 15 ára gamall. Það tók smá tíma að finna sig í annarri menningu.

„Í sannleika sagt var ég ótrúlega stressaður. Ég var kannski ekki alveg tilbúinn og hugsaði út í að fara heim. Fjölskyldan fór með mér út og mamma og pabbi sögðu alltaf við mig: 'Þetta er það sem þú vilt'. Fyrsta árið sýndi ég ekki mitt rétta andlit og virkaði lokaður, sem ég er alls ekki."

„Þegar Jaap Stam kom inn sem knattspyrnustjóri þá sá hann eitthvað í mér. Ég æfði alltaf með aðalliðinu en svo þegar hann fór þá fór þetta aftur í sama horf og var áður en hann kom. Þegar Paul Clement kom inn þá spurði hann 'Hvað ertu að gera hérna?'. Ég var þá búinn að vera meiddur í einhverja tvo mánuði. Það var frekar grillað andrúmsloft og ég þurfti að komast eitthvert á lán. Það kom ekkert annað til greina," segir Axel.

Stór og sterkur en hefur veikleika
Axel er naut að burðum sem nýtist vel í hjarta varnarinnar. Hann hefur ekki langt að sækja líkamlegan styrk en faðir hans er Andrés Guðmundsson kraftakall.

„Ég er þvílíkt heppinn með gen, frá A til Ö. Pabbi er risastór og var auðvitað í öllum þessum kraftakeppnum áður fyrr. Maður vildi vera eins og hann þegar maður var lítill. Svo var mamma í fitness og ég fæ líka góð gen frá henni. Það fyndna er að pabbi hafði nákvæmlega engan áhuga á fótbolta," segir Axel.

Hann elst upp í því að fylgja pabba sínum á kraftakeppnir og einnig í Skólahreysti.

„Maður var endalaust að sprikla í einhverju. Maður var alltaf í ótrúlega góðum æfingum án þess að hugsa út í það."

Þrátt fyrir ýmsa kosti gerir Axel sér vel grein fyrir því hvað hann þarf að bæta sig í.

„Ég er stór og sterkur en veikleiki minn er hraði á fyrstu metrunum. Það er eitthvað sem ég þarf alltaf að halda uppi. Norðmennirnir hrósuðu mér fyrir margt en sögðu að ég þyrfti að bæta hraðann ef ég ætlaði að spila á topp 'leveli'. Ég er í engum feluleik að æfa mig í því. Ég vil bæta þann þátt."

Veit hvað ég get
Talið berst aftur að landsliðinu. Hvernig metur hann framtíðarmöguleikana á að komast í íslenska landsliðið?

„Ég met þá bara góða. Ungir miðverðir eru ekki algengir og talað um að leikmenn í þessari stöðu þurfi meiri tíma til að aðlagast og fá reynslu. Þessir leikmenn sem ég vil berjast við um sæti, og ég lít upp til, hafa staðið sig ótrúlega vel síðustu ár. Það kemur að því að ég muni fá tækifærið mitt og þá er það undir mér komið hvort ég ætli að taka það eða ekki. Ég er alveg meðvitaður um það að það er hellingur af leikmönnum sem eru fyrir framan mig og þeir eru með gæði. En ég veit líka hvað ég get," segir Axel.

„Þegar ég horfi á landsliðið veit ég að mínir hæfileikar gætu nýst landsliðinu vel í framtíðinni. Ef ég myndi ekki trúa því þá væri það ekki spes."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner