mið 23. janúar 2019 21:46
Elvar Geir Magnússon
Higuain: Enginn náð meiru út úr mér en Sarri
Gonzalo Higuain er mættur á Stamford Bridge.
Gonzalo Higuain er mættur á Stamford Bridge.
Mynd: Chelsea
Argentínski sóknarmaðurinn Gonzalo Higuain var í kvöld staðfestur sem nýr leikmaður Chelsea. Hann kemur á láni frá Juventus út tímabilið en Chelsea á möguleika á kaupum í sumar.

Í viðtali við heimasíðu Chelsea segist Higuain sérstaklega spenntur fyrir því að vinna með Maurizio Sarri á ný. Higuain raðaði inn mörkum hjá Napoli undir stjórn Sarri tímabilið 2015/16.

„Sarri er sá þjálfari á mínum ferli sem hefur náð mestu út úr mér. Hann þekkir mína styrkleika og minn persónuleika. Það er frábært að fá að vinna með honum aftur því við áttum frábært ár saman," segir Higuain.

„Þetta var æðislegt tímabil þar sem ég sló markamet. Það er ánægjulegt að fá að vinna með honum aftur hjá félagi eins og Chelsea, sem er með alla þessa sögu og frábæra liðsfélaga."

„Ég hef lengi haft löngun til að spila í enska boltanum en núna gafst loksin tækifærið. Ég vildi grípa það. Ég er kominn í frábært lið og vonandi get ég fært stuðningsmönnum gleði."

Chelsea mætir Tottenham á morgun í seinni viðureign liðanna í undanúrslitum deildabikarsins. Tottenham vann fyrri leikinn 1-0. Higuain verður ekki með í þeim leik. Næsti deildarleikur Chelsea verður gegn Bournemouth 30. janúar en liðið er í 4. sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner