mán 23. janúar 2023 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Leikmaður eins og Dagur Dan er alltaf missir"
Vildu vera á undan atburðarásinni
Hann átti frábært tímabil, var gríðarlega mikilvægur fyrir liðið og hélt rosalega háum standard, alveg sama hvað verkefni hann var settur í.
Hann átti frábært tímabil, var gríðarlega mikilvægur fyrir liðið og hélt rosalega háum standard, alveg sama hvað verkefni hann var settur í.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik fékk Ágúst Hlynsson í sínar raðir frá Horsens í vetur.
Breiðablik fékk Ágúst Hlynsson í sínar raðir frá Horsens í vetur.
Mynd: Breiðablik
Bandaríska félagið Orlando City, sem spilar í MLS-deildinni, er í viðræðum við Breiðablik um kaup á Degi Dan Þórhallssyni. Fjallað var um málið fyrr í dag og Ólafur Kristjánsson, yfirmaður fótboltamála hjá Breiðabliki, ræddi við Fótbolta.net rétt í þessu.

„Ég get staðfest að það eru viðræður milli félaganna," sagði Ólafur. „Já, önnur félög hafa einnig sýnt áhuga á honum."

Eru meiri líkur en minni á því að hann verði ekki með Breiðabliki í sumar?

„Félögin eru búin að tala vel saman. Við vissum alltaf með Dag að það yrði áhugi á honum, það er búinn að vera áhugi á honum og sá áhugi hefur ekkert minnkað. Þannig já, það eru einhverjar líkur á því að hann verði ekki með Breiðabliki næsta sumar."

Væri það mikill missir fyrir Breiðablik?

„Leikmaður eins og Dagur Dan er alltaf missir, eins og hann spilaði síðasta sumar, það er engin spurning. Hann átti frábært tímabil, var gríðarlega mikilvægur fyrir liðið og hélt rosalega háum standard, alveg sama hvað verkefni hann var settur í. Það er missir alveg sama hvað, óháð því hvernig hópurinn er samansettur núna."

„Við fórum af stað fyrir áramót og vildum vera á undan atburðarásinni ef eitthvað myndi gerast. Ég veit að þjálfararnir og leikmannahópurinn leysa þetta, en það stígur enginn beint í skóna hans Dags og gerir sömu hluti. Hann var frábær í fyrra,"
sagði Óli.

Í vetur hefur Breiðablik fengið til sín þá Patrik Johannessen og Ágúst Eðvald Hlynsson sem geta leyst stöður á miðjunni og þar fyrir framan. Rætt hefur verið um að Blikar hafi fengið Ágúst í sínar raðir með þá hugsun að mögulega væri Dagur á leið í atvinnumennsku í vetur.

Dagur var keyptur frá Mjöndalen fyrir síðasta tímabil eftir að hafa leikið á láni hjá Fylki frá norska félaginu tímabilið 2021. Dagur blómstraði á síðasta tímabili, vann sér sæti í liði Blika sem varð Íslandsmeistari með talsverðum yfirburðum. Í lok tímabils var hann svo valinn í lið ársins.

Dagur er 22 ára gamall og spilaði á miðjunni, á vinstri kantinum og í vinstri bakverði á síðasta tímabili. Hann á að baki 28 leiki með yngri landsliðum Íslands og fjóra A-landsleiki. Fyrsti landsleikurinn kom gegn Sádí-Arabíu í nóvember í fyrra.

Sjá einnig:
„Dagur Dan gerir tilkall til að vera einn af hópnum"
Athugasemdir
banner
banner
banner