fim 23. maí 2019 18:00
Ívan Guðjón Baldursson
Evra: Sanchez kom annað hvort fyrir peninginn eða sjöuna
Mynd: Getty Images
Alexis Sanchez gekk í raðir Manchester United frá Arsenal í janúar 2018 en hefur ekki náð sér á strik hjá sínu nýja félagi.

Sanchez var gríðarlega eftirsóttur á þessum tíma og virtist hann vera á leið til Manchester City þegar Rauðu djöflarnir stálu honum.

Hann skrifaði undir risastóran samning, með 350 þúsund pund í vikulaun. Þegar vikulaunin eru lögð saman við ímyndarrétt og hina ýmsu aukabónusa þá þénar framherjinn hátt upp í 500 þúsund pund á viku hjá Man Utd.

Sanchez sagðist hafa valið Man Utd framyfir City því hann hélt með liðinu í æsku. Patrice Evra gefur lítið fyrir þá útskýringu.

„Ég hef ekkert á móti Sanchez persónulega en sumir leikmenn koma bara fyrir peninginn, ég er ekki smeykur við að segja þetta," sagði Evra í viðtali hjá Gary Neville.

„Hann gat valið Manchester City, sem bauð honum minni pening en var í titilbaráttu og að spila betri fótbolta heldur en United. Þá hefði Guardiola líka bætt hann sem leikmann.

„Ég vil vita raunverulegu ástæðuna fyrir því að hann valdi United og ekki segja mér að það sé útaf því að hann elskaði félagið í æsku.

„Hann kom annað hvort fyrir peninginn eða til að fá sjöuna og vera aðalstjarnan í liðinu."


Evra spilaði fyrir Man Utd í sjö og hálft ár og vann fimmtán titla með félaginu, ef fimm Samfélagsskildir eru taldir með.
Athugasemdir
banner
banner
banner