Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 23. júní 2019 17:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Stjarnan og Valur með mikilvæga sigra
Hilmar Árni er núna markahæstur í deildinni.
Hilmar Árni er núna markahæstur í deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjörnumenn unnu Fylki 5-1.
Stjörnumenn unnu Fylki 5-1.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri gerði sigurmark Vals.
Andri gerði sigurmark Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í síðasta Pepsi Max Innkasti Fótbolta.net var rætt um vandræði Vals og Stjörnunnar. Þessi lið unnu sína leiki í deildinni í dag.

Stjarnan fékk Fylki í heimsókn. Fylkismenn höfðu unnið tvo deildarleiki í röð fyrir leikinn á meðan Stjarnan hafði aðeins unnið einn af síðustu fimm.

Stjarnan náði forystunni á 28. mínútu þegar hinn efnilegi Sölvi Snær Guðbjargarson skoraði. Sölvi kom inn í byrjunarliðið og þakkaði fyrir sig. Forystan entist ekki lengi því Jósef Kristinn Jósefsson jafnaði fyrir Fylki með sjálfsmarki tveimur mínútum síðar.

Staðan var 1-1 í hálfleik í Garðabæ. Það fyrsta sem gerðist í seinni hálfleiknum var það að Ævar Ingi Jóhannesson kom Stjörnunni yfir. Þegar um 20 mínútur voru til leiksloka kom Alex Þór Hauksson Stjörnunni í 3-1 með stórkostlegu marki. „Hvaða rugl er þetta!!!!!! Þvílíkt mark af lööööngu færi!!!!!" skrifaði Sverrir Örn Einarsson í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.

Á 82. mínútu gekk svo Hilmar Árni Halldórsson frá leiknum eftir frábæra sókn hjá Stjörnunni. Hann bætti við öðru marki sínu áður en leiknum lauk og er hann kominn með sjö mörk í Pepsi Max-deildinni í sumar. Hann er núna markahæstur.

Góður sigur hjá Stjörnunni sem fer upp fyrir Fylki í fjórða sæti deildarinnar. Stjarnan er með 15 stig eftir 10 leiki. Fylkir er með 12 stig eftir níu leiki.


Þriðji sigur Vals í 10 leikjum
Að Hlíðarenda mættust Valur og Grindavík. Fyrstu 15 mínúturnar voru frekar jafnar. „Bæði lið skiptast á að sækja og halda boltanum fyrsta korterið. Grindvíkingar alveg eins líklegir og Valsmenn ef ekki meira," skrifaði Arnar Daði í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.

Staðan var 0-0 að loknum fyrri hálfleiknum. Vörn Grindavíkur þétt fyrir eins og svo oft áður í sumar.

Kaj Leo í Bartalsstovu kom inn á hjá Val á 56. mínútu og hann skipti sköpum. Hann átti góða fyrirgjöf á Andra Adolphsson sem skoraði fyrsta markið í leiknum á 67. mínútu. Það reyndist eina mark leiksins og þriðji sigur Vals í sumar staðreynd.

Valur er með 10 stig eftir 10 leiki í áttunda sæti. Grindavík hefur ekki unnið í síðustu fjórum leikjum. Liðið er einnig með 10 stig, en í tíunda sæti á markatölu.

Stjarnan 5 - 1 Fylkir
1-0 Sölvi Snær Guðbjargarson ('28 )
1-1 Jósef Kristinn Jósefsson ('30 , sjálfsmark)
2-1 Ævar Ingi Jóhannesson ('48 )
3-1 Alex Þór Hauksson ('69 )
4-1 Hilmar Árni Halldórsson ('82 )
5-1 Hilmar Árni Halldórsson ('90 )
Lestu nánar um leikinn

Valur 1 - 0 Grindavík
1-0 Andri Adolphsson ('67 )
Lestu nánar um leikinn

Leikur KA og Víkings er í fullum gangi. Smelltu hér til að fara í beina textalýsingu.

Klukkan 19:15 hefst svo stórleikur KR og FH í Kaplakrika. hérna verður bein textalýsing.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner