Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   sun 23. júní 2019 18:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Phil Neville finnur ekkert til með Kamerún
Phil Neville.
Phil Neville.
Mynd: Getty Images
Leikmenn Kamerún virtust neita að halda áfram undir lok seinni hálfleiks þegar mark Englands var dæmt gott og gilt með hjálp VAR.
Leikmenn Kamerún virtust neita að halda áfram undir lok seinni hálfleiks þegar mark Englands var dæmt gott og gilt með hjálp VAR.
Mynd: Getty Images
„Þetta var ekki fótbolti," sagði Phil Neville, þjálfari Englands, eftir 3-0 sigur á Kamerún á HM kvenna. Leikurinn var vægast sagt furðulegur.

„Þetta var ekki leikur í 16-liða úrslitum HM ef við miðum við hegðun leikmanna. Ég naut leiksins ekki og leikmennirnir nutu hans ekki," sagði Neville.

Stuttu fyrir leikhlé komst England í 2-0 þegar Ellen White skoraði. Þá hófst dramatíkin.

Flaggið fór á loft og var markið dæmt af vegna rangstöðu, en þegar það var skoðað í VAR þá var það dæmt gott og gilt. White var réttstæð. Leikmenn Kamerún voru ekki sáttir með þessa VAR-ákvörðun og við tóku fundarhöld á miðjum vellinum.

Þær virtust hreinlega neita að spila áfram þótt ákvörðunin hefði verið rétt. Að lokum héldu leikmennirnir áfram. Í leikhlé grétu leikmenn Kamerún í göngunum og er sagt að þær hafi verið með ásakanir um kynþáttafordóma.

Snemma í seinni hálfleiknum var mark dæmt af Kamerún vegna rangstöðu. Eftir að VAR hafði skoðað atvikið þá var það dæmt af. Það var tæpt, en um rangstöðu var að ræða. Þetta var ekki til að kæta leikmenn og þjálfara Kamerún.

„Þessar myndir fara út um allan heim. Ungar stelpur sjá þessa hegðun. Þetta á ekki að vera boðlegt," sagði Neville.

Aðspurður sagðist Neville hafa enga samúð með Kamerún.

„Reglur eru reglur. Í öðru marki okkar var Ellen White réttstæð. Ég er stoltur af leikmönnum mínum fyrir að reyna að spila fótbolta."

England mætir Noregi í 8-liða úrslitunum.

Hægt er að sjá atvikin úr leiknum á vef RÚV hérna.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner