Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fös 23. júlí 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Sif, fyrir mér, vann bara kraftaverk"
Sif Atladóttir.
Sif Atladóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, fótboltaþjálfari hjá Kristianstad í Svíþjóð, segir að landsliðskonan Sif Atladóttir hafi unnið kraftaverk með því hún kom til baka í fótboltann eftir barneign.

Sif eignaðist sitt annað barn í september á síðasta ári með eiginmanni sínum Birni Sigurbjörnssyni, sem er aðstoðarþjálfari kvennaliðs Kristianstad.

Hún byrjaði að spila fótbolta aftur snemma á þessu ári og hefur staðið sig vel með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu - þar sem hún hefur leyst margar mismunandi stöður, ekki bara miðvörðinn.

„Sif, fyrir mér, vann bara kraftaverk. Hún byrjaði að spila töluvert fyrr en hún átti að gera eftir barneign. Hún er búin að gera ótrúlega mikið fyrir liðið og standa sig geggjað vel í að koma til baka. Ég dáist að henni, þvílíkur styrkur og dugnaður," sagði Bára í nýjasta þætti af Heimavellinum.

Sif, sem er 35 ára, hefur meðal annars spilað fremst á miðjunni. Það hefur virkað fyrir liðið.

Sif er reynslubolti með Kristianstad. Hún hefur verið hjá félaginu í tíu ár. Hin 19 ára gamla Sveindís Jane Jónsdóttir er á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku og Bára hrósar henni.

„Sveindís er búin að koma rosalega vel inn í þetta. Hún byrjaði tímabilið með miklum látum en lendir svo í meiðslum sem tóku á. Hún er komin til baka og var ekki lengi að koma sér í gang. Hún er að standa sig ótrúlega vel," sagði Bára en Sveindís hefur höndlað stökkið frá Íslandi til Svíþjóðar vel.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér að neðan.
Heimavöllurinn - Boltaspjall með Báru
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner