banner
   sun 24. janúar 2021 18:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Enski bikarinn: Fernandes hetja Man Utd gegn Liverpool
Fernandes skoraði sigurmark Man Utd.
Fernandes skoraði sigurmark Man Utd.
Mynd: Getty Images
Salah gerði tvö fyrir Liverpool.
Salah gerði tvö fyrir Liverpool.
Mynd: Getty Images
Manchester Utd 3 - 2 Liverpool
0-1 Mohamed Salah ('18 )
1-1 Mason Greenwood ('26 )
2-1 Marcus Rashford ('48 )
2-2 Mohamed Salah ('58 )
3-2 Bruno Fernandes ('78 )

Manchester United er komið áfram í fimmtu umferð enska bikarsins eftir sigur á erkifjendum sínum í Liverpool.

Þessi lið mættust í deildinni um síðustu helgi og sá leikur var gríðarleg vonbrigði fyrir áhorfendur heima í stofu. Hann endaði með markalausu jafntefli. Leikurinn í kvöld var aðeins meiri skemmtun, vægast sagt.

Gestirnir í Liverpool tóku forystuna á 18. mínútu í leiknum þegar Mohamed Salah skoraði eftir sendingu frá Roberto Firmino.

Man Utd svaraði markinu fljótlega og jafnaði metin á 26. mínútu. Marcus Rashford átti þá frábæra sendingu inn á Mason Greenwood sem kláraði vel fram hjá Alisson í marki Liverpool. Þetta var mark búið til í akademíu Man Utd.

Staðan var 1-1 í hálfleik í fjörugum leik. Í byrjun seinni hálfleiks tóku heimamenn forystuna á Old Trafford. Marcus Rashford, sem átti mjög góðan leik, skoraði þá eftir slæm mistök frá Rhys Williams, sem átti ekki góðan dag í vörn Liverpool.

Englandsmeistararnir gáfust hins vegar ekki upp og jafnaði Salah aftur á 58. mínútu. Sama uppskrift og í fyrra markinu; Firmino á Salah og Egyptinn skoraði. James Milner spilaði lykilhlutverk í aðdragandanum þar sem hann komst inn í slaka sendingu Edinson Cavani. Firmino átti svo sendingu sem Milner lét fara á Salah.

Í seinni hálfleiknum sendi Liverpool Sadio Mane inn af bekknum og Man Utd sendi Bruno Fernandes inn af bekknum; tveir stjörnuleikmenn. Á 78. mínútu skoraði svo Fernandes beint úr aukaspyrnu, glæsilegt mark.

Þetta var hörkuleikur og nokkuð jafnræði með liðunum. Það var hins vegar Man Utd sem tók sigurinn og fer áfram í bikarnum. Man Utd mætir West Ham í næstu umferð. Liverpool hefur aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum en sá sigur kom gegn krakkaliði Aston Villa.

Önnur úrslit í dag:
Enski bikarinn: Abraham setti þrennu og Werner klúðraði víti
Enski bikarinn: Leicester kom til baka - Jói Berg spilaði í sigri
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner