sun 24. mars 2019 12:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Andri Lucas partur af afar áhugaverðu tríói hjá unglingaliði Real Madrid
Andri Lucas í treyju Espanyol, Andri er vinstra megin á myndinni.
Andri Lucas í treyju Espanyol, Andri er vinstra megin á myndinni.
Mynd: Diario AS
Zinedine Zidane
Zinedine Zidane
Mynd: Getty Images
Andri Lucas Guðjohnsen skoraði í gær þrennu í 3-3 jafntefli U17 ára liðs Íslands og Þýskalands í leik liðanna í undankeppni EM2019.

Andri Lucas gekk í raðir Real Madrid frá Espanyol í fyrra. Andri er sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, markahæsta leikmanns íslenska landsliðsins frá upphafi og fyrrum leikmanns Chelsea og Barcelona.

Hjá unglingaliði Real Madrid hittir Andri Lucas fyrir tvo aðra syni goðsagnakenda knattspyrnumanna.

Það eru þeir Lucas Canizares, sonur Santiago Canizares og Theo Zidane sonur Zinedine Zidane.

Santiago Canizares er þekktastur fyrir veru sína hjá liði Valencia þar sem hann spilaði yfir 300 leiki í La Liga. Santiago er hins vegar uppalinn hjá Real Madrid og náði á ferli sínum að spila 41 leik fyrir félagið. Peter Schmeichel sagði á sínum tíma að Canizares væri besti markvörður í heimi.

Zinedine Zidane þekkja flestir. Hann er núverandi stjóri aðalliðs Real Madrid og lék á árum áður með félaginu og Juventus. Zidane varð m.a. heimsmeistari með franska landsliðinu árið 1998 og hefur unnið Meistaradeildina með Real bæði sem leikmaður og þrisvar sinnum sem þjálfari, nú síðast á síðustu leiktíð.

Theo Zidane leikur sem framsækinn miðjumaður og Lucas Canizares er markvörður. Andri Lucas spilar sem framherji. Leikmennirnir feta því allir í fótspor feðra sinna með því að leika í sömu stöðum á vellinum og þeir gerðu.




Athugasemdir
banner
banner
banner