sun 24. mars 2019 08:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Henry besti erlendi leikmaður í sögu Úrvalsdeildarinnar
Mynd: Getty Images
Könnun fór fram á BBC á dögunum þar sem bestu leikmenn Úrvalsdeildarinnar sem ekki eru fæddir á Bretlandseyjum voru valdir eftir því hvar á vellinum þeir spiluðu.

Valið fór þannig fram að nefnd valdi þrjá markmenn, þrjá varnarmenn, þrjá miðjumenn og fjóra sóknarmenn. Mengi leikmanna var það að þeir urðu allir að hafa komist í lið ársins í Úrvalsdeildinni. Svo var kosið um hver væri bestur í hverri stöðu og einnig hver fékk flestu atkvæðin sem besti erlendi leikmaður deildarinnar frá upphafi. Alls voru ríflega 250 þúsund atkvæði greidd í kosningunni.

Þeir fjórir sóknarmenn sem voru valdir af nefndinni voru þeir Didier Drogba(Chelsea), Thierry Henry(Arsenal), Sergio Aguero(Manchester City) og Eric Cantona(Leeds og Manchester United)

Drogba varð í fjórða sæti kosningarinnar, Aguero í því þriðja, Cantona í öðru og besti framherji í sögu úrvalsdeildarinnar var Thierry Henry samkvæmt kosningunni. Thierry Henry var einnig sá leikmaður sem fékk flest atkvæði yfir besti erlendi leikmaður í sögu Úrvalsdeildarinnar. Henry fékk alls 45% atkvæða.

Cristiano Ronaldo fékk næst flest atkvæði eða 14% atkvæða og Eric Cantona varð í þriðja sæti með 12% atkvæða.

Þeir framherjar sem voru hvað næst því að komast á topp 4 listann voru þeir Luis Suarez(Liverpool),Ruud van Nistelrooy(Manchester United), Dennis Bergkamp(Arsenal) og Mohamed Salah(Liverpool).

Alan Shearer, markahæsti leikmaður Úrvalsdeildarinnar frá upphafi tjáði sig um Henry á BBC í kjölfar kosningarinnar og hafði þetta að segja: „Fyrir það hversu lengi hann spilaði í deildinni og fjölda leikja sem hann spilaði og marka sem hann skoraði þá er Henry sá besti sem hefur spilað í deildinni."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner